146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

orð ráðherra í sérstakri umræðu.

[16:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér situr ríkisstjórn með eins manns meiri hluta. Hér situr líka ríkisstjórn þriggja flokka þar sem formaður eins flokksins, Viðreisnar, kemur hér ítrekað upp í samtölum við Alþingi með hroka og yfirlæti. Ég ætla ekki að fara út í kímnigáfu hæstv. ráðherra, vegna þess að það eru eflaust einhverjir sem hafa gaman af gríni hans, ekki þó sú sem hér stendur. En það plan sem hæstv. ráðherra fór niður á hér áðan gagnvart málshefjanda í eðlilegri fyrirspurn varðandi gagnrýnisverð vinnubrögð, er algjörlega fyrir neðan allar hellur.

Treystir þessi ráðherra sér ekki í málefnalegar umræður? Er það eitthvað sem hæstv. ráðherra ræður ekki við? Er það eitthvað sem hann treystir sér ekki til að gera, að eiga í heiðarlegum og opnum skoðanaskiptum án þess að lítilsvirða viðmælanda sinn? Er það eitthvað sem hæstv. ráðherra finnst til fyrirmyndar? Ég skora á hæstv. ráðherra að koma hér og biðjast velvirðingar á orðum sínum, því að hann er minni maður ella. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)