146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

orð ráðherra í sérstakri umræðu.

[16:32]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það getur alveg skeð í umræðum hér í þingsal að við missum okkur. Maður getur svo sem reynt að sýna því skilning. En það hlýtur hins vegar að vera þannig að menn geti þá líka komið upp í pontu, því að ég sé að hæstv. fjármálaráðherra er nú hér kominn í hliðarsal, og einfaldlega beðist afsökunar á þeim orðum sem hann lét falla, eins og hann hefur svo sem gert áður. Að hann biðji okkur líka hér sem tókum þátt í umræðunni afsökunar á að hafa ekki svarað þeim spurningum sem við beindum til hans. Það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu að jafn nýr þingmaður og hæstv. ráðherra sé nú ekki alveg búinn að gleyma því sem hann talaði um þegar hann talaði til kjósenda fyrir kosningar, um mikilvægi þess að bæta stjórnmálamenninguna og hvernig hann ætlaði að haga (Forseti hringir.) sér ef hann kæmist inn á þing, og væntanlega þá líka sem ráðherra.