146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

fóstur og fósturbörn.

469. mál
[19:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Á þskj. 611 beindi ég nokkrum fyrirspurnum til hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra um fósturbörn og bað m.a. um upplýsingar um hversu mörg þau væru og hversu mörg væru í ættingjafóstri og í fóstri hjá ótengdum einstaklingum. Ég spurði jafnframt hversu hátt hlutfall fósturbarna útskrifast úr 10. bekk grunnskóla og hversu hátt hlutfall lýkur framhaldsskólaprófi, hversu mörg börn hætta í fóstri árlega og hvaða stuðning þau fá frá hinu opinbera eftir að fóstri lýkur.

Í svarinu er mjög augljóst að þrátt fyrir að við séum með 400 börn á hverju ári í fóstri, þar af 1/3 hjá ættingjum og 2/3 hjá óskyldum, þá virðumst við hafa mjög litlar upplýsingar um hvernig börnunum farnast í fóstrinu og eftir fóstrið. Þetta er í samræmi við þær upplýsingar sem ég fékk á sínum tíma á fundi með Félagi fósturforeldra. Þau töluðu um að þau sinntu mjög mikilvægum verkefnum við að sinna og byggja upp börn sem af einhverjum ástæðum geta ekki búið lengur hjá foreldrum sínum. Þau kölluðu mjög eftir auknum stuðningi.

Þegar spurt er t.d. hvort fósturbörn útskrifist úr 10. bekk grunnskóla og hversu mörg þeirra ljúki framhaldsskólaprófi, sem flest börn á Íslandi eru að gera, erum við einfaldlega ekki með upplýsingar um það. Við erum heldur ekki með upplýsingar, samkvæmt þessum svörum, um það hvers konar stuðning fósturbörn fá frá hinu opinbera. Það var eitt af því sem fósturforeldrar nefndu, að þau væru búin að vera með mörg börn í fóstri og síðan eftir að börnin hættu í fóstri hjá þeim, 18 ára eða tvítug eins og er möguleiki á að framlengja til, þá hafa börnin engan annan að leita til en fósturforeldra sinna. Fósturforeldrarnir eru kannski með mjög mörg börn sem geta ekki leitað annað en til þeirra. Þeir reyna að gera sitt allra besta en það virðist ekki mikið hugað að því hvernig við getum stutt betur við börnin.

Það er mjög mikilvægt að ráðherrann svari því hvernig hann sér fyrir sér að bæta gæði fósturs og auka eftirfylgni og eftirlit með fósturbörnum. Þetta er, og á að vera, lykilúrræði okkar þegar kemur að því að sinna börnum sem geta ekki búið lengur á heimili sínu. Það hefur sýnt sig í öðrum löndum (Forseti hringir.) að það til að mynda hvort barnið (Forseti hringir.) hafi útskrifast úr grunnskóla segir svo mikið til um það (Forseti hringir.) hvernig sá einstaklingur mun ná að fóta sig (Forseti hringir.) seinna í samfélaginu. Ef hlutfall þeirra barna sem ekki útskrifast er mjög hátt (Forseti hringir.) bendir það sannarlega til þess (Forseti hringir.) að við þurfum að taka okkur á (Forseti hringir.) og gera betur.