148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[10:37]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill af þessu tilefni taka fram að málið er á dagskrá þingsins. Forseti ákveður dagskrá.

Varðandi fundahaldið í þessari viku voru þingflokksformönnum send samkvæmt venju drög að áætluðu þinghaldi vikunnar með þeirri breytingu að nefndadagur yrði í gær en ekki þingfundadagur. Sömuleiðis var yfir þetta farið á fundum með þingflokksformönnum og í forsætisnefnd á mánudag. Fundahaldið er að öllu leyti í samræmi við það sem þar var lagt upp með að því frátöldu að enn er órædd tillaga dómsmálaráðherra um persónuverndarreglugerðina sem samkomulag tókst um á þriðjudagskvöldið að fresta þá og taka á dagskrá í dag.

Það var jafnframt vitað að væntanlega gætu verið frumvörp frá þingnefndum eða meiri hluta þingnefnda og þar á meðal ekki síst frumvarp um veiðigjöld. Þegar svo háttar til að þingnefnd í heild sinni eða aukinn meiri hluti þingnefndar eða meiri hluti þingnefndar telur að taka þurfi á máli fyrir þinglok að vori setur forseti slík mál á dagskrá. Það er hins vegar allt annað mál hver afdrif þeirra mála verða, það er í höndum þingsins.

Forseti lítur svo á að það séu skilaboð um að a.m.k. meiri hluti í þingnefnd telji brýnt að takast á við tiltekin mál þegar frumvörp þar um eru lögð fram og sé því ekki að miða við aðstæður í þinghaldinu nú og að þegar skammt lifir þingtímans séu málefnaleg rök fyrir því að andmæla því að slík mál séu sett á dagskrá. Hitt er annað mál hvernig þeim reiðir af, eins og kunnugt er.

Forseti vill að lokum upplýsa að hann hefur óskað eftir því að hitta þingflokksformenn í hádeginu og þá getum við farið betur yfir þessi mál.