148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[10:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Við erum hér með dagskrá sem er ekki í neinu samræmi við það sem við höfum unnið eftir undanfarnar vikur og mánuði. Í fyrsta lagi verð ég að segja að þegar farið var inn í hléið fyrir sveitarstjórnarkosningar var gert samkomulag um að ákveðin mál yrðu afgreidd úr nefnd. Ég spyr forseta: Hvers vegna er ekki staðið við það? Hvers vegna hafa til dæmis mál frá Flokki fólksins eða Miðflokknum ekki verið afgreidd úr nefndum eins og samið var um? Við sjáum hér hins vegar þingmannamál sem eru tekin fram fyrir þau mál sem búið var að semja um og sett hér á dagskrá.

Þessi mál eru tilbúin til úttektar. Á ekki að standa við það samkomulag? Meiri hlutinn, sem er hér við völd í þinginu og í ríkisstjórn, er núna gjörsamlega að ganga yfir og hunsa allt það sem minni hlutinn hefur óskað eftir og virðir ekki einu sinni það samkomulag sem var gert hér fyrir nokkrum dögum. Það breytir engu hvað okkur finnst um þau mál sem hér eru á dagskrá, það skiptir engu máli hvort við erum sammála þeim eða ósammála, málið er að það átti ekki að gera þetta með þessum hætti, virðulegur forseti. Við vorum búin að semja um að þingmannamál kæmu á dagskrá eftir númeraröð. Hvers vegna er það ekki gert? Og hvers vegna eru þau mál frá stjórnarandstöðunni sem eru tilbúin í nefndum (Forseti hringir.) ekki kláruð? Þetta er óþolandi og þetta er til þess að hleypa hér öllu í uppnám.