148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[10:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að gerðir séu samningar milli þingflokksformanna eða á meðal formanna flokkanna en það virðist eingöngu vera ætlast til þess að stjórnarandstaðan standi við þá samninga. Stjórnarflokkarnir standa síðan við samningana bara ef það hentar þeim þann daginn. Gerðir eru samningar um að mál stjórnarandstöðuflokka séu tekin út úr nefndum og ekki staðið við þá. En síðan verðum við vitni að því að mál eins og það sem nú er til umræðu, 11. mál á dagskrá, er keyrt í gegn á ljóshraða með alls konar nýjum reglum og viðmiðum. Þetta gerir það að verkum að ég sé ekki annað en að það verði talsvert erfiðara fyrir hæstv. forseta að koma á einhvers konar samningum en það væri ef stjórnin teldi sér skylt að standa við þegar gerða samninga með sama hætti og stjórnarandstaðan telur sér skylt.