148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Mér heyrist á umræðunni hér í dag að það sé full þörf á að þingmenn fái tækifæri til að ræða veiðigjaldamálin efnislega. Margir hv. þingmenn hafa hér í fundarstjórn forseta farið út í efnislegar umræður um málið og ég held að okkur sé ekkert að vanbúnaði að fara út í þær efnislegu umræður. Það liggur auðvitað fyrir að það er óhjákvæmilegt fyrir okkur að taka málið fyrir með einum eða öðrum hætti áður en þingið fer heim. Eins og hæstv. forseti hefur sagt felur ákvörðun hans í dag í sér að taka málið á dagskrá til 1. umr., en það verður síðan að koma í ljós hvernig því vindur fram í þinginu. Ég held að það sé alveg ástæðulaust fyrir hv. þingmenn að leggjast þverir gegn því að málið komist á dagskrá vegna þess að við þurfum að takast á við það með einum eða öðrum hætti. Við kunnum að hafa skiptar skoðanir um það og þær skiptu skoðanir eiga að koma fram í umræðum í þinginu og í nefnd, eftir atvikum, þegar málið er svo komið.

Varðandi afgreiðslu í velferðarnefnd þá verð ég að segja að það er auðvitað skilvirkt að setja (Forseti hringir.) málið með einhverjum hætti til ráðherra þegar ljóst er að það er hvort sem er verið að vinna að þessum málum á vegum ráðuneytisins, (Forseti hringir.) m.a. með fulltrúum allra þingflokka.