148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:10]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta er allt saman að verða býsna dapurlegt. Varðandi það tiltekna mál sem hér er aðallega rætt um, og er síðasta dagskrármálið á fundi þingsins í dag, skilst mér að búið sé að senda út umsagnarbeiðnir vegna málsins frá hv. nefnd. Hingað til hefur verið venja að mál þurfi að komast á dagskrá og vera vísað til nefndar áður en umsagnarbeiðnir eru sendar út. Mér finnst einhvern veginn að allt hér í störfum þingsins sé að snúast á höfuð og haus. Menn eru miklir formalistar, sumir, þannig að ég átta mig ekki alveg á þessu verklagi.

Þar fyrir utan er mjög sérkennilegt að meiri hlutinn hefur lagt ríka áherslu á það, þegar þingmannamál eru til umræðu í nefndum, að þau séu þaulrædd (Forseti hringir.) og að kallað sé eftir umsögnum og gestum og helst megi ekki hreyfa við þeim nema allir séu nákvæmlega sammála í nefndinni. En það virðist ekki eiga við þegar stjórninni liggur lífið á.