148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:16]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil aðeins halda því til haga hver aðdragandinn er að því að þetta mál kemur fram með þessum hætti, 11. mál, um veiðigjöld. Hluti af vandamálinu sem þingið stendur frammi fyrir núna hvað varðar skipulag og mögulega samninga eða ekki samninga er auðvitað hversu seint málið er fram komið, og allir hér inni vita að kallað hefur verið eftir lagfæringum á því mánuðum og misserum saman. Ástæðan virðist vera það ósætti sem er á milli ríkisstjórnarflokkanna.

Mér segir svo hugur um að við eigum eftir að setja undir því næstu daga og kannski vikur að mál séu tafin og að drollað sé með mál af því að ríkisstjórnarflokkarnir eru fullkomlega á skjön hver við annan hvað varðar afstöðu í málum eins og þessu. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að málið kemur fram með þessum hætti í stað þess að vera í þeim eðlilega farvegi sem það hefði verið ef það hefði verið til umræðu hér miklu fyrr á þessu þingi. Nægur hefur tíminn verið. (Forseti hringir.) Hér hafa ljósin verið slökkt í þingsalnum fyrri hluta dags bara vegna málaleysis.