148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:23]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir það að þetta mál er allt of seint komið fram, ég tek hjartanlega undir það. Það hefði átt að vera komið fyrir löngu. Við byrjuðum að fjalla um þetta mál og afkomu lítilla og meðalstórra fyrirtækja strax í janúar og febrúar í atvinnuveganefnd, kölluðum inn gesti þá. Við vissum að það var mikið ákall, sérstaklega í þessum litlu og meðalstóru fyrirtækjum, um að taka til endurskoðunar veiðigjöld sem hækkuðu um 200–300% og jafnvel meira 1. september 2017. Nú liggur fyrir að ef veiðigjald hefði verið lagt á miðað við afkomu greinarinnar í ár yrði það 7,2 milljarðar. Á síðasta ári liggur fyrir að veiðigjaldið var 8,4 milljarðar. Með þessu frumvarpi, þar sem sérstaklega er tekið á vanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja og jafnræðis er gætt — þess gætt að gjaldið lækki eitthvað í krónutölu gagnvart öllum fisktegundum — erum við að tala um 8,3 milljarða. Áætlun um 10,2 milljarða stenst enga skoðun, hún er áætlun og í fjármálaáætlun er talað um 8 milljarða í veiðigjöld á ári.