148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:26]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég leyfi mér að minna á þau mál sem eru tilbúin úr nefndum og ættu heima hér á dagskrá. Þar á meðal er málið um stafrænar smiðjur sem afgreitt var í mikilli sátt úr allsherjar- og menntamálanefnd og er tilbúið til afgreiðslu innan þingsins en er ekki á dagskrá. Sömuleiðis gildir um mál Viðreisnar um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Það er heldur ekki á dagskrá á þessum degi.

Þetta setur allt í ákveðið uppnám, sérstaklega það hvaða mál þingmanna fá að koma á dagskrá þingsins. Ég minni á að Framsókn hefur t.d. fengið mál afgreitt á meðan okkar mál bíða enn öll afgreiðslu á þinginu og við fáum ekki að ræða þau.

Hvað þá umræðu varðar sem er í gangi núna finnst mér líka mikilvægt að halda því til haga að á þriðjudaginn ætlum við að fara að ræða fjármálaáætlun. Mér finnst þetta mál varpa sprengju inn í þá umræðu. Ég velti fyrir mér hvort yfir höfuð sé gert ráð fyrir þessu í fjármálaáætlun. (Forseti hringir.) Það setur þá vinnu líka í algert uppnám og það hvernig ganga mun með fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.