148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Ég er ekki hér til að kvarta yfir lund hæstv. forseta. Ég vek hins vegar athygli á því að hæstv. forseti er með meiri þingreynslu heldur en aftasti bekkurinn hérna hægra megin samanlagt. Þess vegna hlýtur hæstv. forseti að sjá að um þessa dagskrá sem við erum með fyrir framan okkur verður ekki sátt eða samkomulag. Hvað gera vísir menn þegar þeir sjá fram á það, hoknir af reynslu? Jú, þeir taka hlé, fara yfir málin með þingflokksformönnum, þeir bera klæði á vopnin, þeir finna lausnir. Því skora ég nú á hæstv. forseta að grípa til allrar þeirrar þingreynslu sem hann hefur og grípa til allrar lipurðar sem hann býr yfir og fresta nú fundi og fara yfir dagskrá þessa fundar og þau mál sem við þingmenn höfum rætt hér og kvartað yfir í dag þannig að við getum haldið starfi áfram svo sómi sé að.