148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég hef stundum í kerskni talað um Framsóknarflokkana þrjá í ríkisstjórn, en ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki alveg það ímyndunarafl að Vinstri græn væru orðin fast viðhengi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sérstaklega þegar kemur að grímulausri sérhagsmunagæslu á tilteknum sviðum. Hér fáum við það fram svart á hvítu. Við spyrjum því eðlilega: Hvert er erindi Vinstri grænna núna í ríkisstjórn?

Á hinn bóginn getur hæstv. forseti leitt okkur hér saman og verið forseti alls þingsins með því að gera hlé á þingfundi, fá þingflokksformenn til fundar við sig til að reyna að ráða ráðum okkar þannig að við náum einhverri sátt um dagskrá þingsins, að ekki verði sett á dagskrá mál nokkurn veginn með ofbeldi. Ég hvet hæstv. forseta, sem ég hef trú á að geti liðkað fyrir málum, að gera núna hlé á þingfundi til að fá fólk saman og fara yfir dagskrána og næstu daga. Það er brýnt að fá skýrt svar frá hæstv. forseta.