148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

Hvalárvirkjun.

[11:51]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Hvalárvirkjun er afar umdeild virkjun hverrar þróun virðist byggjast á miklum misskilningi um að eingöngu sé hægt að tryggja Vestfjörðum fullnægjandi raforkuaðgengi með virkjun á þessum stað. Margir hafa veitt því athygli að um sé að ræða sérlega fallegan stað á Vestfjörðum með einstaka náttúrufegurð, en ljóst er að hún mun raskast verulega ef af virkjunarframkvæmdunum yrði.

Nú er ýmislegt sem bendir til þess að vegna snarlækkandi verðs á sólarorkuframleiðslu og geymslu raforku geti farið svo að eftirspurn eftir raforku til stóriðju muni fara minnkandi upp úr 2040. Til viðbótar er alþekkt vandamál við raforku á Vestfjörðum dreifingarvandamál en ekki framleiðsluvandamál.

Mig langar til að spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Kemur til greina, af hálfu umhverfisráðherra, að friða landsvæðið í kringum Hvalá í samræmi við tillögur Sigurðar Gísla Pálmasonar? Ef ekki, væri umhverfisráðherra opinn fyrir því að tryggja að víðtækara umhverfismat fari fram á svæðinu en átt hefur sér stað, áður en virkjunarframkvæmdir hefjast, til þess að taka af allan vafa um framkvæmdina?

Að lokum: Getur verið siðferðislega ásættanlegt að gera svona veigamiklar og óafturkræfar aðgerðir í ljósi þess að þetta er bæði röng lausn á fyrirliggjandi vandamáli og á sama tíma getur þetta skapað stærra vandamál, bæði gagnvart náttúrunni og gagnvart efnahag þjóðarinnar í komandi framtíð?