148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

Hvalárvirkjun.

[11:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Ég þakka aftur fyrir. Ég held ég verði að setja á hraðspólun svo að ég geti svarað þessu öllu.

Í fyrsta lagi, varðandi friðun svæðisins þarna í kring, þá eru engar áætlanir um það. Það fer í faglegt ferli það sem fyrirhugað er að vernda eða friðlýsa hverju sinni. Enn sem komið er hefur það ekki verið sett fram þarna. Þó hafa norðan við svæðið verið hugmyndir um að stækka friðlandið á Hornströndum. Hvort þarna þurfi að fara í víðtækara umhverfismat er eitthvað sem er alveg þess virði að skoða einfaldlega vegna þess sem komið hefur fram þarna. Hins vegar er nýbúið að fara í umhverfismat akkúrat á framkvæmdinni.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um að aflétta fyrirvörum varðandi langreyði í CITES-samningnum þá er það eitthvað sem ég held að væri áhugavert að skoða. Ég þakka honum fyrir þá ábendingu.