148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[12:52]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. SÁÁ eru dæmi um einkaframtak sem stendur sig vel við að sinna heilbrigðisþjónustu. Þetta eru grasrótarsamtök sem hafa sýnt og sannað að þau geta sinnt faglegu starfi fyrir lítinn pening. Þau eru að vísu ekki ein, það eru fleiri og við þurfum að passa að það fjari ekki undan þeim hópum sem sinna þessu mikilvæga starfi. En þegar við fjöllum sérstaklega um biðlista þurfum við auðvitað að skoða það í samhengi við annað, við þurfum að skoða það í samhengi við hvaða þjónustu er eðlilegt að veita og hve mikla, hverjir geta gert þetta líka, hvað aðrir eru að gera og hvað Landspítalinn er að gera.

Ég treysti ráðherra fullkomlega til að fara vel yfir þessi mál og endurskipuleggja þetta. Það þarf sífellt að gagnrýna og skoða og fara yfir það hvað við getum betur gert þannig að við nýtum peninginn sem best. Það sem skiptir mestu máli er að þeir sem við þennan vanda glíma fái fullnægjandi þjónustu og fjármagnið sem til þess þarf.