148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[12:54]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, hún er mjög þörf. Mikill fjöldi fólks á Íslandi glímir við einhvers konar fíknisjúkdóm. Sjúkrahúsið Vogur býður upp á meðferðarrými fyrir um 60 manns og er rekið af SÁÁ sem eru auðvitað, eins og hefur komið hér fram, frjáls félagasamtök sem ekki lúta ríkisvaldi en fá hins vegar greitt samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

Því verður ekki neitað að Vogur sinnir afar mikilvægu starfi og hefur hjálpað ótal mörgum Íslendingum að ná tökum á fíknivanda sínum. Hins vegar er það hlutverk okkar sem hér störfum að auka þann fjölda sem allra mest. Það er lítil fjölbreytni í meðferðarúrræðum hér á landi og er þetta bagalegt fyrir margra hluta sakir, m.a. þeirra að sumir þurfa á tvíþættri og jafnvel margþættri meðferð að halda, t.d. vegna undirliggjandi geðrænna sjúkdóma. Einnig er bagalegur sá trúartónn sem er í boði í öllum þeim meðferðarúrræðum sem Íslendingar geta leitað til.

Við Píratar höfum barist fyrir því að litið sé á fíknivanda sem heilbrigðisvandamál sem hann ótvírætt er. Það er því ekki viðeigandi að á þessum tímum sem við lifum, 2018, hafi einu meðferðarúrræðin sem standa til boða þessar trúaráherslur. Það er vitað að þetta hentar ekki öllum og fælir hreinlega suma einstaklinga frá því að leita sér aðstoðar. Ætti þessi þjónusta ekki að vera hluti af grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins okkar? Ég beini því til hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún líti ekki svo á að þannig eigi að vera. (Forseti hringir.) Þegar ég kem hér upp í síðara sinn ætla ég að beina nokkrum spurningum beint til hæstv. heilbrigðisráðherra.