148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[12:56]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, frumkvæðið að þessari umræðu og hæstv. ráðherra fyrir hennar svör. Fíknisjúkdómar hafa víðtæk áhrif, ekki bara á þá einstaklinga sem glíma við vandann heldur einnig fjölskyldur þeirra og samfélagið allt. Sjúkdómurinn fer ekki í manngreinarálit og spyr hvorki um stétt né stöðu eða aðstöðumun. Því er þjónusta SÁÁ mjög verðmæt samfélaginu öllu. Það er staðreynd að fjölda dauðsfalla má rekja beint til neyslu áfengis eða annarra vímuefna. Þá er ótalinn sá lýðheilsuvandi sem steðjar að öllu umhverfinu og samfélaginu. Fíknisjúkdómurinn er margþættur sjúkdómur og þarf að vinna úr því í samvinnu við fagfólk. Því skiptir stuðningur við þau úrræði sem í boði eru, eins og sjúkrahúsið Vogur, miklu máli. Það skiptir líka máli að horfa til margra þátta, t.d. aðstöðumunar þeirra sem búa við þennan sjúkdóm og fjölbreytileika úrræða. Þar vil ég sérstaklega nefna þroskaskert fólk sem virðist vera svolítið á hliðarlínunni eða bara ekki inni í þessu kerfi og er mjög erfitt að finna úrræði fyrir þennan hóp.

Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra þegar hann kallar til þessa samtals, sem mér finnst mjög mikilvægt og fagnaðarefni, um málefni barna og ungmenna sem glíma við neysluvanda að horft verði sérstaklega til skipulags áfengis- og vímuefnameðferðar fyrir þennan hóp og vil beina því til hæstv. ráðherra að kalla málsvara þessa hóps sérstaklega til.

Virðulegi forseti. Þetta málefni skiptir okkur öll máli og því er mjög mikilvægt að við styðjum við þetta úrræði og horfum til allra þessara hópa og eins að koma á stefnu þar sem horft er til lýðheilsu og forvarna.