148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[12:59]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að hafa vakið máls á þessu hjartans máli mínu. Ég vil leyfa mér að halda að ekki ein einasta íslensk fjölskylda eigi ekki einhvern kærkominn sér, nákominn sér, sem hefur glímt við fíknivanda og hefur þurft að leita hjálpar hjá SÁÁ. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni hér áðan, þetta er dæmi um vel heppnað einkaframtak. Í raun og veru er alveg óhætt að fullyrða að það er engin stofnun eða opinber aðili sem kemst með tærnar þar sem SÁÁ hefur hælana í þekkingu og fagmennsku þegar kemur að því að taka utan um og hjálpa fíklunum okkar.

En hvernig er hin raunverulega staða í dag? Hvernig er staðan í dag þegar við erum að tala um að biðlistarnir eftir hjálpinni hafa aldrei verið lengri? Samt erum við enn í samtali. Samt er enn verið að kalla saman einhverja faghópa og koma á samtali um hvað sé til ráða. Hversu margir eru að deyja á biðlistum meðan við erum að tala saman um það hvað eigi að gera? Þó að við séum ekki að tala um veiðigjöldin núna og lækkun þeirra er ástæða til að benda á það að bara 10% af þeim 3 milljörðum sem er verið að lækka veiðigjöldin um núna til útgerðarinnar, bara 10% af þeirri upphæð myndu gjörbreyta allri stöðu unglinga og fíkla á Íslandi í dag og hjálpa SÁÁ virkilega að taka utan um þá og eyða þessum biðlistum einn, tveir og þrír. Hvers vegna gerum við það ekki? Væri það ekki fallegri draumur en veruleikinn sem við horfumst í augu við í dag?