148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[13:03]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég heiti Kolbeinn og ég er alkóhólisti. Þannig kynni ég mig reglulega á annars konar fundum en hér eru og þarf kannski engan að undra að málefnið sem hér er undir er mér nokkuð hugleikið. Ég hef sjálfur verið á biðlista á Vogi sem mér fannst óþarflega langur en í ljósi þess sem hv. þm. Sigurður Páll Jónsson sagði áðan, að enginn getur hætt drykkjuskap nema hann vilji sjálfur, þá beið ég þó að mér þætti biðin löng. Ég hef keyrt fólk upp á Vog, ég hef sótt það þangað þegar það lýkur meðferð en einnig þegar það útskrifar sig sjálft. Ég hef jafnvel keyrt það síðan þangað aftur þegar það kemst aftur í meðferð eftir að hafa skipt um skoðun og viljað fá þá hjálp sem það þurfti svo nauðsynlega á að halda.

Ég veit ekki hvort þetta gerir mig vanhæfan í umræðunni. Ég vona ekki, ég brenn í það minnsta mjög fyrir málefninu. Ég veit að sú þjónusta sem á Vogi er veitt getur gefið fólki nýtt líf og er talandi dæmi um það. Fólki getur fundist það sem því sýnist um það hvernig ég haga mínu nýja lífi, ég er ekki viss um að allir hér inni séu sammála mér í einu og öllu með það, en ég fékk í það minnsta færi á að taka ákvörðun og val um hvernig það yrði gert.

Þannig mun ég alltaf styðja það að við styðjum og styrkjum það góða starf sem unnið er á Vogi. Mér er í sjálfu sér sama hvað það heitir, þjónustusamningur til langs tíma, sérstakar aðgerðir, stuðningur við þetta eða hitt, bara að starfsemin verði styrkt, að það sé hægt að veita þá nauðsynlegu þjónustu og lífsnauðsynlegu þjónustu sem þar er. Ég treysti hæstv. heilbrigðisráðherra vel til verka hvað það varðar og hún fær minn stuðning til þess.