148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[13:08]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna eiginlega til að taka undir hvatningu þeirra sem hér hafa talað á undan til hæstv. heilbrigðisráðherra. Það vill þannig til að fjármálastjóri SÁÁ kom á fund fjárlaganefndar í gær og upplýsti okkur um að það vantaði 300 milljónir eða svo inn í rekstrargrunninn hjá þeim til þess að geta haldið uppi viðhlítandi þjónustu. Þessar 300 milljónir eru eiginlega upp á krónu sama upphæð og vantar upp á það ef þjónustusamningurinn — eða verðin í þjónustusamningunum sem að grunni til er orðinn tíu ára gamall, held ég — hefði verið uppfærður með verðlagi síðan hann var gerður. Það eru þessar 300 milljónir sem vantar upp á.

Ég er algjörlega sannfærður um það að ríkinu býðst ekki betri kostur í aðhlynningu sjúkra sem haldnir eru þessum sjúkdómi heldur en SÁÁ býður upp á. Það kemur m.a. til af því að starfsemi SÁÁ er þríþætt í megindráttum. Það er sjúkrahúsið Vogur sem kostar um 925 milljónir á ári að reka. Ríkisframlagið þar er tæplega 700 milljónir, þannig að þeir eru að greiða með sér, sem eru að hluta til hugsjóna- og sjálfboðaliðasamtök, um 200 milljónir með Vogi. Meðferðarstöðin Vík kostar um 330 milljónir tæpar. Þar er ríkisframlagið 219. Þar greiða samtökin rúmlega 100 milljónir með. Göngudeildina í Reykjavík reka þau upp á eigin reikning og ekkert ríkisframlag kemur þar á móti.

Ég vil bara taka undir með þeim sem hér hafa lýst því að ég held að ríkið og heilbrigðisyfirvöld komist bara ekki í betri díl en þetta. Legukostnaður á sjúkrahúsinu Vogi eru 40 þús. kr. Fæst einhvers staðar betri díll en þetta fyrir sjúkrahúsmeðferð á veiku fólki?