148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[13:13]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda þessa þörfu umræðu. Staðan er sú að alvarlegum fíknivandamálum hefur fjölgað. Það er grafalvarleg staða sem engan veginn er hægt að sætta sig við. Augljós afleiðing þess er aukið álag á SÁÁ, en sú stofnun býður upp á meðferð fyrir einstaklinga sem glíma við áfengisfíkn. Þar er unnið út frá því að sjúkdómurinn sé margþættur og hægt að meðhöndla hann í samvinnu við fagfólk. Þar er unnið gríðarlega gott og faglegt starf og meðferðin byggir á læknisfræðilegum greiningum. Einstaklingurinn og aðstæður hans eru í fyrirrúmi. Starfsemin hefur fyrir löngu sannað sig og er horft til hennar sem fyrirmyndar víða um heim.

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið er mikilvægt að samtvinna félagsleg og heilbrigðisleg úrræði til að ná sem bestum árangri. Landlæknir leggur áherslu á að samhljómur sé í löggjöf Alþingis og stefnu stjórnvalda um málefni lýðheilsu. Vísar hann í stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020, enda er einn af áherslupunktum ríkisstjórnarinnar að leggja áherslu á forvarnir og lýðheilsu. Það er gott.

Liður í forvörnum er rekstur göngudeildar, en þjónustusamningnum um göngudeild SÁÁ var sagt upp 2014. Heimsóknir þangað eru um 28.000 á ári. Mig langar því að koma að spurningum.

Hefur ráðherra uppi einhver áform um að styðja við þessa þjónustu sem gæti annað fleirum, minnkað aðra þörf og haft áhrif á biðlista?

Úr greinargerð frá SÁÁ má lesa að samtökin hafa greitt af sínu söfnunarfé til heilbrigðisþjónustu sem þau veita. Er einhverra breytinga að vænta þar?

Þá vil ég benda á að samtökin hafa sjálf fjármagnað sérhæfða sálfræðiþjónustu við börn sem eru aðstandendur fólks með fíkn. Þetta er mikilvægt forvarnaverkefni fyrir áhættuhóp. Sér ráðherra einhvern flöt á því að styðja þennan mikilvæga þátt með einhverjum hætti?