148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Þegar kemur að skattlagningu, hvort heldur sem er á einstaklinga eða atvinnulíf, skiptir fyrirsjáanleiki gríðarlega miklu máli, að það sé ekki verið að fikta í hlutunum fram og til baka með algjörlega ófyrirsjáanlegum hætti og að við ríkisstjórnarskipti sé vitað fyrir víst að það verði stokkað upp í því sem fyrri ríkisstjórnir hafa gert. Þess vegna tölum við um að reyna að ná einhvers konar þverpólitískri niðurstöðu í svona mikilvægum málum.

Þegar kemur að veiðigjaldaumræðunni er alveg ljóst að þar hafa verið mjög skipta skoðanir. Ég get tekið undir með hv. þm. Bergþóri Ólasyni að það er margt sem betur mætti fara í núverandi fyrirkomulagi. En að ætla að fara í slíka uppstokkun í pólitískri andstöðu, hatrammri pólitískri andstöðu, og í flumbrugangi og fúski, að reyna að breyta kerfinu á einhverjum fáeinum dögum, eru ekki boðleg vinnubrögð. En það er alveg ljóst að ásetningur stjórnarflokkanna er eindreginn í þessu. Það á ekki með nokkrum hætti (Forseti hringir.) að láta skynsemina ráða för. Það skal fautast í gegnum þetta og (Forseti hringir.) Vinstri grænum falið að leiða málið til lykta þrátt fyrir gagnrýni á viðlíka vinnubrögð á þarsíðasta kjörtímabili. Þetta er ekki þinginu (Forseti hringir.) til framdráttar.