148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

fjármálafyrirtæki.

422. mál
[20:46]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund sinn, eins og kemur fram í nefndarálitinu, sérfræðinga frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, frá Fjármálaeftirlitinu og frá Samtökum fjármálafyrirtækja.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem miða fyrst og fremst að innleiðingu hluta tilskipunar 2014/59/ESB um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, sem nefnd er BRRD (Bank Recovery and Resolution Directive). Sá hluti tilskipunarinnar sem nú er innleiddur lýtur að endurbótaáætlun, tímanlegum inngripum hins opinbera og fjárstuðningi innan samstæðu. Fyrirhugað er að ljúka innleiðingu tilskipunarinnar á næsta löggjafarþingi. Að auki eru með frumvarpinu innleidd nokkur ákvæði tilskipunar 2013/36/ESB, um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim, og reglugerðar ESB nr. 575/2013, um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja. Reiknað er með að þær gerðir verði teknar upp í EES-samninginn fyrir árslok þessa árs.

Ákvæði frumvarpsins um endurbótaáætlanir leggja þá skyldu á tiltekin fjármálafyrirtæki að gera áætlanir þar sem fjallað skuli um fyrirhuguð viðbrögð við rekstrarerfiðleikum. Kröfur um innihald endurbótaáætlunarinnar verða að hluta til lögbundnar auk þess sem ráðherra skal setja nánari reglur þar að lútandi í reglugerð. Fjármálaeftirlitið skal leggja mat á hvort endurbótaáætlun sé í samræmi við lög og reglur, hvort verklag samkvæmt henni sé líklegt til árangurs og hvort líklegt sé að henni megi hrinda hratt í framkvæmd ef þurfa þykir.

Í umsögn sinni sem og á fundi með nefndinni lögðu Samtök fjármálafyrirtækja áherslu á að lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum yrði veittur rúmur tími til gerðar og framlagningar fyrstu endurbótaáætlunarinnar og nefndu 12 mánaða frest frá gildistöku laganna í því sambandi. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar er tekið undir nauðsyn þess að rúmt svigrúm verði veitt til útbúnings fyrstu endurbótaáætlunar. Ráðuneytið hafði samráð við Fjármálaeftirlitið um þetta atriði þar sem fram hafi komið að viðskiptabankarnir þrír sem teljast kerfislega mikilvægir hafi þegar skilað tvennum drögum að endurbótaáætlunum, síðast í desember 2017. Að því gefnu að frumvarpið verði að lögum á yfirstandandi þingi telji Fjármálaeftirlitið líklegast að fyrstu skil kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja á endurbótaáætlun verði í desember 2018 en fyrstu skil annarra fyrirtækja sem skila eiga endurbótaáætlun samkvæmt ákvæðunum verði ári síðar, eða í desember 2019. Út frá skipulagi er heppilegast að skil fari fram undir lok árs. Ráðuneytið telji því ekki þörf á að kveða á um frest fyrir fyrstu skil í lögum heldur eftirláta Fjármálaeftirlitinu mat á tímasetningu afhendingar í samráði við viðkomandi fyrirtæki. Nefndin tekur undir að ekki sé þörf á að kveða á um frestinn í lögum enda sé ljóst að sá frestur verði ekki skemmri en 12 mánuðir frá gildistöku laganna fyrir þau fyrirtæki sem ekki hafa nú þegar hafið undirbúningsvinnu og skilað Fjármálaeftirlitinu drögum að endurbótaáætlun.

Í 7. gr. frumvarpsins eru ákvæði sem heimila Fjármálaeftirlitinu að grípa til aðgerða (tímanleg inngrip) þegar fyrirtæki brýtur gegn ákvæðum laganna eða stjórnvaldsfyrirmæla settum á grundvelli þeirra eða þegar líkur eru á að slíkt brot sé yfirvofandi vegna versnandi fjárhagslegrar stöðu. Í tímanlegum inngripum felst meðal annars að Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að fjármálafyrirtæki grípi til aðgerða samkvæmt endurbótaáætlun, boði til hluthafa- eða stofnfjáreigendafundar, víki frá stjórnarmönnum eða framkvæmdastjóra og breyti viðskiptastefnu og skipulagi. Í ákvæðinu er lögð til gagnkvæm upplýsingaskylda Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands þannig að Fjármálaeftirlitið skuli upplýsa Seðlabankann ef aðstæður koma upp þar sem beiting tímanlegra inngripa verður heimil og Seðlabankinn skuli upplýsa Fjármálaeftirlitið ef lausafjárstaða lánastofnunar fer versnandi þannig að líkur verði á að hún muni brjóta gegn ákvæðum laganna.

Ákvæði 12. gr. frumvarpsins fjalla um fjárstuðning innan samstæðu. Þar er kveðið á um heimild móðurfélaga, dótturfélaga og annarra félaga innan samstæðu til að gera samning um fjárstuðning sín á milli. Skal samningurinn, sem getur kveðið á um fjárstuðning í formi láns, ábyrgðarveitingar, lánsveðs eða samsetningar af þessum tegundum lánsforma, koma til framkvæmda ef einhver samningsaðila kemst í þá stöðu að Fjármálaeftirlitinu yrði heimilt að beita hann tímanlegum inngripum. Samningur um fjárstuðning er háður samþykki Fjármálaeftirlitsins og í honum skulu koma fram reglur um endurgjald fyrir veittan fjárstuðning. Í athugasemdum um 12. gr. í greinargerð frumvarpsins kemur fram að ákvæðið beri ekki að skilja svo að samningur um fjárstuðning sé nauðsynleg forsenda þess að félag veiti öðru félagi innan samstæðu fjárstuðning í fjárhagserfiðleikum.

Í e-lið 5. gr. frumvarpsins, sem verður 82. gr. e laganna, er fjallað um einfalda endurbótaáætlun sem Fjármálaeftirlitið getur heimilað fjármálafyrirtæki að gera að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem tíunduð eru í ákvæðinu. Í 3. mgr. greinarinnar kemur fram að ráðherra kveði nánar á um skilyrði fyrir einfaldri endurbótaáætlun í reglugerð. Í umsögn Fjármálaeftirlitsins til nefndarinnar er lagt til að í stað skilyrða í reglugerðarheimildinni verði rætt um viðmið. Reglugerð þessi muni byggjast á reglugerð ESB sem sé enn í drögum, þar sem kveðið sé á um viðmið sem höfð skulu til hliðsjónar þegar metið er hvort heimila skuli fjármálafyrirtæki að skila einfaldri endurbótaáætlun. Viðmiðin skuli þó ávallt byggjast á skilyrðunum sem kveðið er á um í lögunum. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar er tekið undir þessa tillögu Fjármálaeftirlitsins enda sé í 4. gr. BRRD-tilskipunarinnar, sem e-liður 5. gr. frumvarpsins innleiðir, notast við enska orðið „criteria“, sem betur fari að innleiða sem viðmið. Nefndin fellst á framangreind sjónarmið og leggur til orðalagsbreytingu á 3. mgr. e-liðar 5. gr. frumvarpsins í samræmi við þetta.

Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar er bent á að misfarist hafi að uppfæra tilvísanir til lagagreina samhliða breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki með lögum nr. 96/2016, sem m.a. breyttu staðsetningu ákvæða um eiginfjárauka, samanber nú 86. gr. a–f laganna. Nefndin leggur af þessu tilefni til breytingu á frumvarpinu til að leiðrétta tilvísanir í 86. gr. f laganna þar sem vísa ætti til 86. gr. a en ekki 84. gr. a.

Í 9. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 107. gr. laganna og byggjast breytingarnar á tilskipun 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim. Í a-lið 9. gr. frumvarpsins er lagt til að í 1. málslið 2. mgr. 107. gr. laganna komi fram að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfsemi eignarhaldsfélags á fjármálasviði, blandaðs eignarhaldsfélags og blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem stofnsett eru eða starfa hér á landi. Í 2. málslið ákvæðisins segir að eftirlit Fjármálaeftirlitsins nái einnig til starfsemi eignarhaldsfélags á fjármálasviði, blandaðs eignarhaldsfélags og blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi, móðurfélags slíkra félaga og dótturfélaga þeirra, þegar þau eru staðsett í öðru ríki, m.a. þegar starfsemi slíks félags fer fram hér á landi. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar er annars vegar lagt til að orðið „einnig“ falli brott úr textanum þar sem það sé til þess fallið að þrengja gildissvið reglunnar sem eigi að vera sjálfstæð gagnvart þeirri reglu sem lagt er til að kveðið verði á um í 1. málslið Jafnframt leggur ráðuneytið til að orðin „m.a. þegar starfsemi slíks félags fer fram hér á landi“ falli brott enda séu þau óþörf og valdi hættu á rangri túlkun reglunnar. Undir þessi sjónarmið tekur nefndin og leggur til, í breytingartillögu sem fylgir þessu nefndaráliti, viðeigandi breytingar.

Auk þess eru hér breytingartillögur sem eru tæknilegar og ég ætla ekki að rekja hér frekar.

Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti.

Þess ber að geta að hv. þm. Brynjar Níelsson og Oddný G. Harðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

Undir álitið skrifa allir nefndarmenn efnahags- og viðskiptanefndar, þ.e. sá er hér stendur, auk hv. þingmanna Þorsteins Víglundssonar, Brynjars Níelssonar, Bryndísar Haraldsdóttur, Helga Hrafns Gunnarssonar, Oddnýjar G. Harðardóttur, Ólafs Þórs Gunnarssonar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Þórunnar Egilsdóttur.