151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:07]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég hlýt að koma upp og taka undir þá gagnrýni sem komið hefur fram. Núna er, ekki bara í einni nefnd heldur tveimur nefndum samtímis, verið að gagnrýna það að fólk skuli mynda sér skoðanir og fjalla um þær skoðanir út á við. Það er ekki mjög jákvætt. Ef fólk getur ekki tekið þær upplýsingar sem það hefur fengið í gegnum störf nefnda og fjallað um þær út frá sínum skoðunum, út frá sínum hugmyndum, þá er ástandið orðið ansi slæmt. Þá er tilgangurinn með því að fá gesti á fundi jafnvel farinn. Ef við getum svo ekki haft og myndað okkur skoðanir og sett þær fram út á við þá er jafnvel spurning hvort tilgangur þingsins sé ekki farinn. Við verðum að hafa þetta málfrelsi. Við verðum að mega fjalla um það sem er á döfinni í þinginu og við verðum líka að fá að geta gert það án þess að ráðherrar eða aðrir séu að hlutast til um það og hafa skoðanir á því hvort maður megi hafa skoðun yfir höfuð.