151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

launamunur kynjanna.

[13:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil segja það hér í upphafi svars míns að verðmætamat á störfum kvenna er, að ég tel, eitt það mikilvægasta sem við getum gert til að útrýma kynbundnum launamun. Ég held að við eigum að horfa til hugmyndafræði og aðferðafræði starfsmats í þeim efnum. Ég held að það sé mikilvægasta tækið sem við getum nýtt. Hvernig við gerum það er flókið og það er ástæðan fyrir því að þó að áratugum saman hafi verið ákvæði í lögum um jöfn laun karla og kvenna þá þokast hægt.

Hv. þingmaður spyr hér um aðgerðir stjórnvalda og ég held að hann sé að vitna sérstaklega í þær opinberu fjárfestingar sem hafa verið til umræðu í samgöngumannvirkjum og nýbyggingum sem vissulega gagnast frekar körlum. En telur hv. þingmaður að tekjufallsstyrkir, viðspyrnustyrkir sem eru að fara til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, 97% af innlendum vinnumarkaði, gagnist fyrst og fremst körlum? Eru það ekki einmitt konur líka sem eru að vinna í þessum litlu og meðalstóru fyrirtækjum? Snýst þetta ekki einmitt um að taka líka til skoðunar fjárfestingar í rannsóknum, nýsköpun, skapandi greinum, sem ættu með sanni líka að nýtast konum, og velta fyrir okkur: Af hverju er það svo að konur sækja til að mynda ekki eins bratt og karlmenn í þá styrki? (Forseti hringir.) Þar er einhver rót sem við þurfum að ráðast að.

Að lokum er það kannski mikilvægasta (Forseti hringir.) pólitíska ákvörðunin sem höfum tekið, sem er að skera ekki niður velferðar- og menntakerfið. (Forseti hringir.) Það er eitt af því sem ég hef séð að fólk gefur sér, að það muni bitna á konum af því að ráðist verði í þann niðurskurð. Ef eitthvað hefur sýnt gildi sitt í þessari kreppu þá eru það þau kerfi.