151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

þróun verðbólgu.

[14:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þingmaður á við þegar hann segir að einhver hafi ekki fengið krónu út úr Covid. Við höfum verið með sérstakar uppbætur á réttindum í almannatryggingakerfinu á undanförnu ári. Umræðan um það hvort við eigum að banna verðtrygginguna er önnur umræða. Ég reyndar er hér með fyrir þinginu frumvarp um að þrengja að notkun verðtryggingar á 40 ára jafngreiðslulánum og ég ætla bara að leyfa mér að vísa í framsögu mína um þessi efni til að svara þeirri vangaveltu hv. þingmanns. Varðandi launin á Íslandi, sem hljóta að hafa einhver tengsl við þróun verðlags í landinu, þá er það þannig að á Íslandi hefur launavísitalan á síðustu 12 mánuðum hækkað um 10,4% — um 10,4%.