151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[14:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir gagnrýni hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Ef við fáum einmitt svoleiðis svör eða engin svör þá fáum við oft söguskýringar, eins og kom fram í fyrirspurn minni til hæstv. fjármálaráðherra, söguskýringar um að afsagnarkrafa fjármálaráðherra hafi verið vegna þess að löglegar leiðir voru ekki notaðar. Ég held að það sé frekar augljóst að sjá það í öllum umræðum um það mál að það var bara einfaldlega ekki þannig. Við búum einmitt við þetta vandamál að við erum að reyna að sinna eftirlitshlutverki okkar en þá er gargað: Trúnaðarbrestur. Við erum að sinna eftirlitshlutverki okkar en spurningum er ekki svarað. Við erum að sinna eftirlitshlutverki okkar en fáum söguskýringar um eitthvað allt annað. Þetta er vandamálið sem við glímum við í hnotskurn. Við spyrjum og spyrjum um atriði sem varða pólitísk afskipti. Hér er mennta- og menningarmálaráðherra að ráða flokksbróður sinn. Og dómsmálaráðherra hringir í lögreglustjóra (Forseti hringir.) út af samráðherra. Þetta er vandinn.