151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[15:14]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Breyttar aðstæður í öryggis- og varnarmálum í Evrópu og aðgerðir Rússa í álfunni hafa breytt landafræði stjórnmálanna. Þessar aðgerðir eru mesta áskorunin sem steðjar að Evrópu. Þær hafa birst okkur með fleiri en einum hætti og hafa komið á skriði í stefnumótun í öryggis- og varnarmálum í Evrópu og á Norður-Atlantshafi, aðstæður sem hafa kallað á nánara samstarf á vettvangi NATO. Yfirskrift þessarar sérstöku umræðu er því auðsvarað: Ísland á að vera í Atlantshafsbandalaginu og Ísland á að standa við skuldbindingar sínar gagnvart því. Bandalagsríki NATO hafa verið að auka framlög til varnarmála jafnt og þétt á síðustu misserum til að mæta breyttum öryggishorfum. Á ráðherrafundi ráðsins voru ræddar áætlanir um aukin framlög, fjárfestingar og virkari þátttöku í störfum bandalagsins. Varnarsamstarf hefur verið aukið meðal Norðurlandaþjóðanna og Ísland hefur aukið þátttöku sína í borgaralegum verkefnum á vegum NATO. Í ljósi breyttra aðstæðna í öryggis- og varnarmálum Evrópu og á Norður- Atlantshafi ætti einnig að fjölga í Íslandsdeild NATO-þingsins.

Herra forseti. Ísland verður að standa við skuldbindingar sínar þegar kemur að þeirri aðstöðu sem nauðsynleg er hér á landi svo tryggja megi öryggi landsins. Ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar hefur gert það að verkum að nauðsynlegar framkvæmdir, eins og í Helguvík, sem eru greiddar af NATO og Bandaríkjunum, hafa setið á hakanum. Við getum ekki ætlast til þess að bandalagsþjóðir okkar komi okkur til varnar á átakatímum þegar ríkisstjórnin stendur í vegi fyrir því að hér sé lágmarksaðstaða og varnarmannvirkjum sé haldið við. Ríkisstjórnin hefur staðið í vegi fyrir framkvæmdum upp á 13 milljarða kr. á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, greiddar af Bandaríkjunum. Á framkvæmdatíma eru þetta 600 störf og þeim loknum 58 varanleg störf Íslendinga. Ósætti innan ríkisstjórnarinnar má aldrei bitna á öryggi þjóðarinnar.