151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

335. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það vildi þannig til að við yfirlestur skjalavinnslu á stöðuskjali þessa máls, um niðurdælingu koldíoxíðs, eftir 2. umr., komu í ljós tvö atriði sem þarf að laga. Ég tek það skýrt fram að þetta eru fullkomlega lagatæknileg atriði. Í fyrsta lagi snýst þetta um að notað er orðið „geymslusvæði“ í 22. gr. laga um hollustuhætti og þarf að breyta því í orðið „niðurdælingarsvæði“ til samræmis við aðrar greinar í frumvarpinu. Þetta virðist hafa gleymst og hv. umhverfis- og samgöngunefnd tók heldur ekki eftir þessu misræmi. Í öðru lagi, og það er tilfærsla, er í síðustu málsgrein hollustuverndarlaganna, 67. gr., þarf að færa eina málsgrein og ég ætla einfaldlega að gera grein fyrir því með því að lesa þessar breytingartillögur. Það er bara verið að færa innan greinarinnar eina málsgrein. Breytingartillagan sem við erum þá að leggja hér fram eða ég í nafni umhverfis- og samgöngunefndar sem framsögumaður er einfaldlega svona:

1. Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi: Í stað orðsins „geymslusvæði“ í a-lið 1. mgr. 22. gr. laganna kemur: niðurdælingarsvæði.

2. Á eftir orðunum „ný málsgrein“ í inngangsmálslið b-liðar 3. gr. komi: er verður 7. mgr.

Það er sem sagt verið að flytja orð úr niðurlagi 67. gr. laganna upp í 7. mgr. Ég vona að þingmenn skilji þetta, en þetta eru fullkomlega lagatæknilegar breytingar.