151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

mótun klasastefnu.

522. mál
[16:05]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu og þeim sem komið hafa að þessari vinnu. Ég held að hún sé gríðarlega mikilvæg, enda var ég ein af flutningsmönnum þess að óska eftir þessari vinnu. Ég ætla líka að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir það frumkvæði sem hann hefur átt í þeim efnum en við þingmenn höfum líka átt fundi með sérfræðingum á sviði klasamálefna.

Sumir hafa velt fyrir sér: Hvað er klasi og skiptir þetta einhverju máli? Er bara verið að setja ný og falleg orð utan um eitthvað sem við þekkjum nú þegar? Það kann að vera að það sé svo að einhverju leyti en klasi snýst í raun um samstarf fyrirtækja á ákveðnum sviðum. Þá ætla ég að taka það fram, því að það hefur líka stundum komið til tals þegar þessi mál eru rædd, að við erum samt sem áður að tala um löglega samkeppni, þ.e. samkeppni fyrirtækja sem gagnast öllum en vinnur auðvitað ekki gegn samkeppnislögum.

Mér fannst líka gott að heyra það hér hjá hæstv. ráðherra að við erum ekki að tala um að hið opinbera ætli með einhverjum hætti að ákveða hvað atvinnulífið eigi að gera, hvar nýsköpunin eigi að spretta fram og setja það í ákveðinn farveg heldur erum við að tala um umhverfið. Við erum að tala um að umhverfið sé með þeim hætti að það hvetji til nýsköpunar og klasaaðferðafræðin er bara gagnrýnd aðferð sem leiðir til nýsköpunarverkefna og nýtist í þróun slíkra verkefna.

Mér sýnist þessi skýrsla býsna góð og þar er farið yfir reynslu að utan en líka þá mikilvægu reynslu sem við höfum hér heima. Sjávarklasinn okkar er líklega hvað þekktastur í þeim efnum og gaman að sjá að komnir séu systurklasar, eins og það er kallað, víða erlendis. Það er verið að nota þá aðferðafræði sem sjávarklasinn hefur verið að nota víða annars staðar.

Mig langar að nefna tvö verkefni sérstaklega. Hér er talað um kortlagningu á íslensku atvinnulífi. Einn af þeim punktum sem hér er minnst á er endurvinnsla og hringrásarhagkerfið. Ég hef alloft talað úr þessum stól um mikilvægi þess að við byggjum kerfið okkar þannig upp að það sé raunverulegur hvati til nýsköpunar, íslenskrar nýsköpunar, í hringrásarhagkerfinu og endurvinnslunni. Þá er ég að vísa í það mikilvæga sem við getum gert hér, sem er regluverkið. Regluverkið okkar þarf að vera þannig fram sett að þar séu hvatar til þess að vinna á þessum málum hér á landi. Ég nefni sérstaklega endurvinnsluna vegna þess að þar held ég að séu gríðarleg tækifæri fyrir okkur. Það er algerlega ólíðandi að við séum að flytja út sorp í mjög miklum mæli til einhvers konar endurvinnslu erlendis sem við jafnvel vitum ekki nákvæmlega hver er. Ég hvet til þess að enn frekar verði hugað að samstarfi þeirra aðila sem koma að þessum málum. Það gæti orðið klasi sem gæti svo hjálpað okkur í því hvernig best er að aðlaga regluverkið.

Ég ætla líka að nefna norðurslóðamál í þessu samhengi vegna þess að þau eru mér sérstaklega hugleikin. Það er ofboðslega mikið af bæði fyrirtækjum og rannsóknaraðilum hér á landi sem vinna að norðurslóðamálum með einum eða öðrum hætti. Á Akureyri er skýrt dæmi um það þar sem fjöldi fyrirtækja kemur að þjónustu sem hægt er að flokka með einum eða öðrum hætti undir norðurslóðamál. Þarna held ég líka að tækifærin séu gríðarleg. En nú er ég kannski farin að gera það sem ég var að tala um í upphafi, þ.e. að við stjórnmálamenn eigum svo sem ekki að ákveða hvað eigi að horfa á heldur eigum við að búa til umhverfið, tryggja að grasrótin geti komið fram með hugmyndir og þróað nýjar leiðir. Það er það sem skiptir öllu máli varðandi verðmætasköpun okkar til framtíðar.

Ég tek undir orð hæstv. ráðherra hér áðan. Nýsköpun er ekki lúxus, hún er nauðsynleg. Við eigum alltaf að huga að því. Atvinnulífið þarf að huga að því. Við þurfum líka að gera það í opinbera geiranum. Klasastefna er mikilvæg til að bæta enn frekar þann jarðveg sem nýsköpun getur byggt á. Við þurfum að hafa í huga að stjórnvöld séu ekki að skekkja markaðsaðstæður í þágu ákveðinna fyrirtækja, atvinnugreina eða tæknilausna, en við höfum þó hlutverki að gegna við að hnika markaðinum í ákveðnar áttir í samræmi við stefnu, markmið og þær áskoranir sem brýnastar eru.

Ég fagna þessari stefnu og segi eins og hv. þingmaður sem talaði hér á undan mér: Það er mikilvægt að við notum hana líka. Þetta má ekki bara vera fallegt plagg uppi í hillu heldur þarf þetta að nýtast í áframhaldandi vinnu okkar. Þá er líka gott að sjá að við þessa vinnu hefur verið horft á aðrar stefnur sem litið hafa dagsins ljós eins og nýsköpunarstefnuna og stefnu okkar Ísland og fjórða iðnbyltingin. Það er mikilvægt að þessar stefnur okkar tali allar saman svo að við séum að róa í sömu átt.