151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

mótun klasastefnu.

522. mál
[16:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ágætisskýrsla, stuttorð og fer beint í aðalefnið. Mig langar að fjalla um nokkur atriði sem hafa þarf í huga þegar stefnan er innleidd. Til að byrja með er hlutverk stjórnvalda, eins og hér hefur verið nefnt, að búa til aðstæður úti um allt land fyrir nýsköpun í stað þess að velja hvað eigi að skapa og hvað ekki eða hvernig opinberu fjármagni skuli beint inn í nýsköpun á ákveðnum sviðum en ekki öðrum. Það verður að byggja á ákveðnu jafnræði eða almennri stefnu stjórnvalda, t.d. stefnu í loftslagsmálum. Þegar stjórnvöld setja sér almenna stefnu um ákveðna framþróun er ekkert óeðlilegt að hún smitist yfir í t.d. nýsköpunaraðstæður. Það væri t.d. eðlilegt að fara út í græna atvinnunýsköpun samhliða innleiðingu klasastefnunnar.

Þar þarf einmitt að spyrja um samspil við heildarstefnumótunarferli stjórnvalda. Þá á ég við fjármálaáætlunina sem þingið fjallar um á hverju ári. Undanfarin ár hefur samgönguáætlun t.d. verið dálítið sér á báti, byggðaáætlun hefur verið dálítið sér á báti og varla hefur verið hægt að tengja þær áætlanir við fjármálaáætlun á augljósan hátt. Það hefur batnað að undanförnu þar sem fólk hefur verið að vakna aðeins til lífsins varðandi lög um opinber fjármál og um það hvernig framkvæma eigi stefnu stjórnvalda í fjármálaáætlun. Þar verður að leggja til kostnaðarábatagreiningar og forgangsröðun sem hver stefna býr til á sínu sviði. Og þegar við tökum ákvarðanir um fjárheimildir, t.d. í klasastefnu, „summist“ þær þannig upp í fjármálaáætlun að þær séu gagnsæjar og aðgengilegar, bæði fyrir okkur þingmenn sem og borgarana hérna úti.

Á bls. 11 í skýrslunni er minnst á það örfáum orðum að dæmi um svæðisbundið klasasamstarf séu stafrænar smiðjur víðs vegar um land sem séu staðsettar innan þjónustukjarna og veiti þekkingu og þjónustu til breiðs hóps. Alþingi hefur samþykkt stefnu um stafrænar smiðjur, uppbyggingu þeirra og aðgengi allra að þeim. Stafrænar smiðjur eru starfræktar á átta stöðum á landinu. Ekki hefur beinlínis mikið verið gert, að því er ég hef séð, til að uppfylla stefnu þingsins um uppbyggingu á stafrænum smiðjum fyrir alla. Þrátt fyrir að stefnan sé æðisleg hefur framfylgdin á henni ekki verið svo góð. En mjög mikil samlegðaráhrif eru af stefnu um stafrænar smiðjur og klasastefnu. Þær búa til aðstæður og aðgang að ákveðinni tækni og þekkingu fyrir alla, ekki bara suma heldur alla.

Að lokum er talað um hraðar breytingar og þessa kortlagningu. Undanfarið hafa átt sér stað hraðar breytingar og er ekkert farið að hægja á þeim. Að mínu mati hafa þingið og stjórnvöld brugðist allt of hægt við þeim breytingum. Við erum enn þá dálítið í fornöld þegar kemur að því að ná í okkar vinnu þeim tækniframförum sem hafa orðið úti í atvinnulífinu.