151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

mótun klasastefnu.

522. mál
[16:14]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og þessa skýrslu, sem ég held að sé mjög mikilvæg og mikilvægt að við ræðum hana hér og förum svolítið yfir sýn okkar á þetta verkefni. Ég ætla ekki að fara í skýrsluna lið fyrir lið heldur tæpa á nokkrum atriðum sem mér finnst skipta máli. Ein leiðin til að mynda til þess að nota klasastefnu er einmitt að búa til klasa í greinum þar sem gera má ráð fyrir að Íslendingar geti verið sterkir og haft eitthvað fram að færa, eða við sem samfélag. Það hefur einmitt verið gert, eins og kemur fram í listanum framarlega í skýrslunni yfir þá klasa sem þegar eru starfandi. Ég saknaði þess hins vegar í þeirri upptalningu að sjá sérstakan heilbrigðisklasa sem við myndum setja svolítinn þunga í. Þó að það sé kannski ekki mikið og flókið þróunarstarf á bak við margar af þeim lausnum sem við höfum notað í tengslum við Covid-faraldurinn og það sem við höfum þróað hefur það samt sýnt sig að íslenskt hugvitsfólk og íslenskir heilbrigðisstarfsmenn hafa verið býsna duglegir að finna leiðir. Sumar af þeim lausnum sem menn hafa notað eru jafnvel að ná fótfestu erlendis. Það getur skipt alveg gríðarlega miklu máli og það er eitt atriði.

Annar klasi sem ég myndi gjarnan vilja sjá væri það sem mætti kannski kalla sérstakan matvælaklasa, svipað og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hefur bent á. Það væri þá svolítið annað en klasinn um landbúnað og klasinn um sjávarútveg og þar væri fókusinn á matvælaþáttinn. Það er eitthvað sem við Íslendingar getum svo vel gert og getur til að mynda átt mjög sterkar tengingar inn í þær atvinnugreinar sem við höfum verið að byggja upp undanfarin misseri, eins og ferðaþjónustuna. Ég hef bent á að í því sambandi gætum við tengt yfir í til að mynda orkugeirann og þá nýsköpunarvinnu sem þar hefur verið og ég hef m.a. bent á að sú græna innlenda orka sem við höfum hér á landi gæti verið niðurgreidd til að efla íslenskan matvælaiðnað í gegnum slíka þróun og þá í gegnum svoleiðis klasa. Á þessu sviði eru mikil tækifæri og við heyrum í umræðunni nánast á hverjum einasta degi af einhverjum bráðsnjöllum hugvitsmönnum sem eru búnir að finna leiðir til að efla matvælaframleiðslu en það gætu orðið hrein undur ef þeir væru allir að tala saman á hverjum degi og vinna saman og komast að betri niðurstöðu. Ég tel nefnilega að við ættum að geta komist miklu lengra en við höfum gert í því að vera okkur sjálfum næg um matvæli. Ég held að það geti verið eitt af okkar söluatriðum í ferðaþjónustunni.

Að lokum langar mig aðeins að nefna klasa í byggðaþróun, að horfa í meira mæli til þeirra á svæðum þar sem byggðaþróun hefur gengið í öfuga átt, þ.e. byggð hefur hnignað og menn vilja reyna að ná fótfestu eins og með verkefninu Brothættar byggðir. Þar gætu líka verið tækifæri til þess að halda utan um byggðina og hjálpa mönnum að ná aftur viðspyrnu á brothættum svæðum og mjög skemmtileg verkefni gætu komið út úr slíku.