151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

barnalög.

11. mál
[17:16]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Páli Magnússyni, framsögumanni þessa máls, fyrir greinargóða yfirferð. Ég ætla að leyfa mér að fjalla um málið frá mínu sjónarhorni og þeirra sem gera fyrirvara við þetta góða mál. Nefndin er ekki öll á málinu, meiri hluti nefndarinnar skrifar undir nefndarálitið en við erum þrjú sem gerum fyrirvara við málið. Auk mín eru það hv. þingmenn Guðmundur Andri Thorsson og Katla Hólm Þórhildardóttir.

Ég er þeirrar skoðunar að hér sé fram komið mál sem er bæði gott og þarft. Vitaskuld er löggjöfin ekki að mæla hér fyrir neinum nýjum sannleika. Hér er verið að setja umgjörð utan um ákveðið fjölskylduform, aðstæður fjölskyldna sem eru auðvitað þegar fyrir hendi. Áður hafa komið fram mál af þessum toga og í því samhengi vil ég benda á mál frá Viðreisn í kringum hugmyndafræðina um tvöfalt lögheimili barna. Svo að hið augljósa sé sagt, sem ætti náttúrlega að blasa við í ljósi þess að ég er á þessu nefndaráliti, er ég þeirrar skoðunar að hér hafi góð vinna farið fram og er samþykk þessu máli. En ég lagði til ákveðnar breytingartillögur vegna umfjöllunar og umsagna sem fram komu við meðferð málsins í hv. allsherjarnefnd.

Hér er verið að skapa ákveðinn ramma utan um búsetu barna sem er auðvitað þegar til. Með vísan til þess að þessi vinna hefur átt sér langan aðdraganda, hefur tekið tímann sinn, eðlilega, enda er hér töluvert mikið regluverk að baki, og með vísan til þess að þetta frumvarp á ekki að taka gildi fyrr en í janúar 2022, þá var tíminn sannarlega með okkur um að hnýta þá stærstu hnúta sem út af standa. Og ég var framan af mjög hugsi yfir því að þarna ætti að skilja eftir ákveðinn hóp barna og áhyggjur mínar minnkuðu ekki eftir því sem á leið. Ég tel það blasa við, og vísa um það m.a. í ræðu framsögumanns málsins, að gera þarf ákveðnar breytingar samhliða því að þetta frumvarp verður samþykkt. Það hefði átt að gerast samhliða, það hefði átt að tryggja fjölskyldum barna sem eru með ákveðna fötlun sömu tækifæri og öðrum börnum. Það hefði verið rétt og eðlilegt að stíga það skref núna, með þessu frumvarpi, og ég er þeirrar skoðunar að við séum a.m.k. alveg á grensunni þar með hliðsjón af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í ljósi hins langa aðdraganda þessa frumvarps hefði vel mátt leysa úr þeim vandkvæðum sem hér eru uppi. Kostnaðargreining og annað er einfaldlega vinna sem hefði átt að vinnast samhliða og gögn sem nefndin hefði átt að hafa undir höndum nú þegar. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé fullnægjandi afgreiðsla enda þótt ég dragi vitaskuld ekki í efa að það standi til með tímanum að bæta hér úr. En þá finnst mér ekki fullnægjandi að láta það duga að segja að huga þurfi að stöðu fatlaðra barna í þessu samhengi og treysti á að gerðar verði breytingar eftir að við samþykkjum þetta mál sem bæti þar úr. Við hefðum átt að stíga þetta skref núna og gera þessa umgjörð þannig að jafnræði barna væri tryggt. Það liggur fyrir að breyta þarf regluverki um styrki vegna hjálpartækja þannig að börnum í skiptri búsetu sé þá tryggður viðeigandi búnaður, eða tæki eftir atvikum, inn á bæði heimili.

Samhliða þessum fyrirvara okkar þriggja er lögð fram breytingartillaga þess efnis að barn sem er í skiptri búsetu samkvæmt barnalögum eigi rétt á sömu þjónustu á lögheimili annars vegar og búsetuheimili hins vegar, jafnframt að sé barn í skiptri búsetu samkvæmt barnalögum en sé með lögheimili og búsetuheimili hvort í sínu sveitarfélaginu þá eigi það rétt til þjónustu eða aðstoðar í báðum sveitarfélögum, séu skilyrði að öðru leyti uppfyllt.

Fyrir utan það að hér er augljóslega um hagsmunamál þessara fjölskyldna að ræða þá staldra ég við jafnræðissjónarmiðið og það situr í mér að hér sé mögulega að fara í gegn frumvarp sem skilur eftir afmarkaðan hóp að þessu leyti. Ætlunin er að bæta úr því síðar meir en ekkert okkar sem erum inni í þingsal hefur neina fullvissu um hvenær það verður eða með hvaða hætti. Ég myndi í því samhengi vísa til þess að hæstv. félags- og barnamálaráðherra hefur í opinberri umræðu talað dálítið fyrir því að kerfin okkar þurfi að geta talað saman, að kerfin í kringum börn eigi að tala saman til að tryggja að réttar barna sé gætt í hvívetna. Ég er þeirrar skoðunar að frumvarpið, hvað varðar þennan afmarkaða þátt, sé ekki alveg í anda þeirrar hugmyndafræði. Það er ekki í anda hugmyndafræðinnar að vegna þess að þetta mál sé fram komið frá hæstv. dómsmálaráðherra sé ekki hægt að tryggja samhliða breytingar vegna þess að þær séu á forræði annars hæstv. ráðherra, félags- og barnamálaráðherra. Ég ætla nú að vera í þeirri trú að það kunni að fara svo við afgreiðslu þessa máls í þinginu að breytingartillaga okkar þriggja í minni hlutanum hvað þetta varðar verði samþykkt þannig að þegar þetta frumvarp verður orðið að lögum verði þessi hópur barna einnig þar undir.

Að öðru leyti myndi ég vilja segja að við meðferð nefndarinnar um þetta mál varð það ljóst, eins og reyndar er rakið í nefndaráliti okkar, að við vitum t.d. enn ekki hver áhrif þessa máls verða á útreikning barnabóta. Þau eru óljós og ég er ánægð með að gera eigi úttekt á því og meta svo í kjölfarið hvernig veruleika þeirra fjölskyldna verði þá mætt, verði það niðurstaðan að það séu einhver óvænt áhrif á foreldra að þessu leyti. Það er reyndar líka reyndin hvað varðar meðlag og framfærslu að öðru leyti og ég hef nú talað fyrir því innan nefndarinnar að ég hefði áhyggjur af því, þegar þessi veruleiki hvað varðar fjárhag hefur ekki verið greindur, að hér sé kannski komin fram einhver leið sem verði mögulega minna aðgengileg fyrir tekjulága foreldra, þar sem í einhverjum tilvikum mun annað foreldrið sjá að með því að helminga bætur sé staðan orðin þrengri. En eins og ég segi, á þessu er tekið í nefndaráliti á þann hátt að þetta eigi að rýna og greina. Það eru fyrirmæli um hvenær því verki eigi að vera lokið og ég er ánægð með það.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að segja, eins og ég nefndi í byrjun, að hér er um gott mál að ræða en það eru mér vissulega mikil vonbrigði að vinna okkar í nefndinni skuli ekki hafa leitt til þess að þeir nefndarmenn sem eru á þessu nefndaráliti væru reiðubúnir að vera með okkur þingmönnum þremur í því að loka málinu og ná utan um fjölskyldur með fötluð börn í skiptri búsetu sem þurfa á tækjabúnaði að halda eða hjálpartækjum á báðum heimilum til að unnt sé að notfæra sér þetta úrræði og mér hefði fundist mun betri bragur á því ef við hefðum borið gæfu til að loka málinu með þeim hætti.