Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

hafnalög.

712. mál
[17:52]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003. Ákvæði frumvarpsins eru til innleiðingar á ákvæðum reglugerðar Evrópusambandsins 2017/352, um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir, í íslenskan rétt.

Reglugerð þessi, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019, nær til hafna innan hins svokallaða samevrópska flutningsnets. Fimm íslenskar hafnir eru í dag hluti af þessu flutningsneti; Sundahöfn, Seyðisfjarðarhöfn, Fjarðabyggðarhafnir, Vestmannaeyjahöfn og Landeyjahöfn. Í 6. mgr. 1. gr. reglugerðar Evrópusambandsins segir að aðildarríkin geti einnig ákveðið að reglugerðin gildi um aðrar hafnir. Við innleiðingu ákvæða reglugerðarinnar er hins vegar ekki gengið lengra en þörf krefur og munu ákvæði hennar því einungis gilda um hafnir innan samevrópska netsins, að undanskildum ákvæðum um umhverfisgjaldtöku sem ég fjalla hér um á eftir.

Til innleiðingar á ákvæðum þessarar reglugerðar er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði í 9. gr. a, um hafnir innan samevrópska flutninganetsins. Í ákvæðinu segir að höfnum innan samevrópska flutninganetsins sé skylt að eiga samráð við notendur hafna um gjaldtöku sína og veita notendum upplýsingar um breytingar á eðli eða fjárhæð hafnargjalds a.m.k. tveimur mánuðum áður en breytingarnar taka gildi. Þá geti aðgangur að markaði til að veita hafnarþjónustu verið háður lágmarkskröfum um þá þjónustu, takmörkunum á fjölda veitenda, skyldum til að veita tiltekna opinbera þjónustu og takmörkunum sem tengjast innri rekstraraðilum. Þá verði ráðherra skylt með reglugerð að tilgreina þær íslensku hafnir sem eru innan samevrópska flutninganetsins og jafnframt skuli hann mæla nánar fyrir um veitingu hafnarþjónustu og gagnsæi í fjármálum og sjálfstæði þeirra hafna, þar með talið um samráð við notendur hafna um gjaldtöku. Á grundvelli þessarar heimildar verða önnur ákvæði Evrópureglugerðarinnar sem þarfnast ekki lagabreytinga innleidd með reglugerð.

Með frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á 17. gr. og 20. gr. hafnalaga sem veita höfnum heimild til að láta gjaldskrár taka mið af umhverfissjónarmiðum með vísan til orkunýtni eða kolefnisnýtni siglinga. Þessir afslættir eða álögur skulu vera gagnsæjar, hlutlægar og án mismununar og samræmast samkeppnislögum. Í 13. gr. áðurnefndrar reglugerðar Evrópusambandsins er kveðið á um hafnargrunnvirkjagjöld. Ákvæði hafnalaga eru að mestu í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Þau hafa hins vegar ekki að geyma ákvæði sem er í reglugerð Evrópusambandsins þess efnis að hafnir geti látið gjaldtöku taka mið af umhverfissjónarmiðum. Samkvæmt gildandi lögum er höfnum ekki heimilt að gera það nema sýnt sé fram á að kostnaður lækki við þá þjónustu sem þær veita.

Með frumvarpinu er lagt til að þessi heimild verði ekki bundin við þær íslensku hafnir sem eru á samevrópska flutninganetinu heldur nái hún til allra þeirra hafna sem falla undir gildissvið hafnalaga. Lagt er til að ráðherra fái heimild til að mæla nánar fyrir um þessa þætti í reglugerð. Er ætlunin að ráðherra geti þar kveðið á um viðmið sem horft skuli til við ákvörðun þessarar gjaldtöku. Með þessu verður opnað á umhverfismiðaða gjaldtöku sem hefur m.a. verið að ryðja sér til rúms í öðrum Evrópulöndum. Í dag eru einungis skemmtiferðaskip metin samkvæmt þessum alþjóðlegu vísitölum en þegar fram líða stundir gætu flutningaskip bæst við. Alþjóðlegar vísitölur á borð við evrópsku hafnavísitöluna eða European Port Index, með leyfi forseta, eru verkfæri sem gera höfnum kleift að skilgreina umhverfisspor þessara skipa á meðan viðkomu stendur. Með þessu er komið á fjárhagslegu hvatakerfi til umhverfisvænni og sjálfbærari skipareksturs. Það er að mínu mati mikilvægt að koma þessu kerfi á hér. Í nágrannaríkjum er byrjað að hefja gjaldtöku af þessu tagi og ef íslenskar hafnir geta ekki gert er hætt við að útgerðir þessara skipa sendi umhverfisvæn skip til landa þar sem afslættir eru í boði en sendi skipin sem eru minna umhverfisvæn eða jafnvel óumhverfisvæn hingað til lands.

Ekki er gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi umtalsverð áhrif á ríkissjóð í för með sér. Frumvarpið kemur til með að hafa kostnað í för með sér fyrir hafnir sem eru innan samevrópska flutninganetsins á meðan þær aðlagast nýjum reglum um gjaldtöku.

Frumvarpið er ekki talið hafa umtalsverð áhrif á atvinnulífið.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.