Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

hafnalög.

712. mál
[18:03]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hér kemur hv. þingmaður inn á mjög mikilvægt mál sem er ekki bara mikilvægt þegar kemur að björgun á sjó og björgunarbátum, en það er þessi mikla uppbygging og mikla þátttaka og jákvæða innspýting í íslenskt samfélag sem björgunarsveitirnar eru. Það var samþykkt þingsályktun hér á þinginu um stuðning við uppbyggingu björgunarbáta hringinn í kringum landið. Við settum ákveðna fjármuni í það. Það var gerður samningur við þýska skipasmíðastöð, ef ég man rétt, í kjölfarið á útboði. Við erum alla vega búin að fjármagna fyrstu þrjá og það er búið að skipuleggja þetta inn í framtíðina. Ég held að umræðan eða hugmyndin sem hv. þingmaður kom hér með sé ágætt innlegg í það: Hvernig ætlum við í raun að tryggja að þessi sjálfboðaliðasamtök, sem eru svo virk og mikilvæg í okkar samfélagi, fái næga fjármuni til að standa undir búnaðarkaupum og starfseminni, af því að vinnan er öll í sjálfboðavinnu? Ég held að þetta sé bara ágætisinnlegg í það. Ég átta mig ekki alveg á því svona í svipinn hvort það sé færi á því í vinnu nefndarinnar að velta vöngum um það í sambandi við þetta frumvarp en það er sjálfsagt að skoða það. Mér finnst bara jákvætt að velta vöngum yfir því hvernig við getum tryggt björgunarsveitum landsins, hvort sem er á sjó eða landi, aukinn eða varanlegan stuðning og þurfum þá minna að treysta á sölu á flugeldum, rótarskotum, eða hvað það nú er sem menn þurfa að gera til að afla fjár.