131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[14:44]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður staðfesti það að hún ætti ekki sæti í iðnaðarnefnd og getur þess vegna kannski ekki fjallað af miklum kunnugleika um það sem fram fer í þeirri nefnd. Ég get upplýst hv. þingmann um að ég á sæti í nefndinni ásamt Birki Jóni Jónssyni og sá hv. þingmaður talaði einmitt um að það hefði verið villandi upplýsingagjöf, einnig hv. þm Kristján L. Möller. Við erum allir sammála um það. Við erum líka sammála um það tel ég, það má þá fletta því upp, að hæstv. iðnaðarráðherra sagði að hækkunin hefði verið fyrirsjáanleg, þannig að það bendir allt til þess að hæstv. iðnaðarráðherra hafi einfaldlega blekkt iðnaðarnefnd og gefið henni a.m.k. rangar upplýsingar, því það var alltaf talað um nokkurra prósentna hækkun, en ekki tugi prósentna hækkun.

En hvað varðar Stöðvarfjörð, ég tel það mjög gott að Framsóknarflokkurinn fari að hugsa til fólksins þar því að Framsóknarflokkurinn skuldar því fólki svar við því hvað eigi að gera þar. Ég tel að svarið sé einmitt að gefa Framsóknarflokknum ekki atkvæði sitt.