133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis.

41. mál
[17:52]
Hlusta

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt tillögu til þingsályktunar um þjóðfána Íslendinga í þingsal Alþingis. Þetta er í sjötta sinn sem málið er flutt. Sú breyting hefur þó orðið á að fyrst þegar málið var flutt var ég einn á þingsályktunartillögunni en nú háttar svo til að þingmenn sem með mér eru á þessu máli eru orðnir 30 og að mér meðtöldum er það 31 þingmaður sem flytur þessa þingsályktunartillögu.

Flutningsmenn eru auk mín: Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller, Birkir Jón Jónsson, Björgvin G. Sigurðsson, Dagný Jónsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Einar Oddur Kristjánsson, Guðjón Hjörleifsson, Guðjón Ólafur Jónsson, Guðjón Arnar Kristjánsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Ögmundsdóttir, Gunnar Örlygsson, Helgi Hjörvar, Hjálmar Árnason, Jóhann Ársælsson, Jón Gunnarsson, Kjartan Ólafsson, Kristinn H. Gunnarsson, Kristján L. Möller, Magnús Þór Hafsteinsson, Mörður Árnason, Sigurður Kári Kristjánsson, Sigurjón Þórðarson, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Sæunn Stefánsdóttir, Valdimar L. Friðriksson, Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson.

Mér þykir rétt, virðulegi forseti, að geta þess að ekki var leitað til fleiri þingmanna í ljósi þess að í forsætisnefnd sitja sjö alþingismenn og kannski óeðlilegt að leita til þeirra og þá ekki heldur til ráðherranna. Í greinargerð sem fylgir þessari tillögu um að í þingsal Alþingis skuli vera þjóðfáni Íslendinga segir svo:

„Við setningu Alþingis, 131. löggjafarþings, 1. október 2004, vakti athygli alþingismanna hve vel hefur til tekist með lagfæringu, lýsingu og endurbætur á þingsal. Glæsilegt form og nálgun þess sem í upphafi var byggt er öllum þeim sem að komu til sóma.

En hvernig má það vera að innan veggja Alþingis, hvar rætt er um eflingu, vegsemd og gildi þingsins í íslensku þjóðlífi, skuli þjóðfáni vor ekki hafinn til vegs og virðingar?

„Fáninn er tákn fullveldis vors. Fáninn er ímynd þeirra hugsjóna sem þjóð vor á fegurstar. Hvert stórverk, sem unnið er af oss, eykur veg fánans, hvort sem það er unnið á höfunum, í baráttunni við brim og úfnar öldur eða á svæði framkvæmdanna eða í vísindum og fögrum listum. Því göfugri sem þjóð vor er því göfugri verður fáni vor. Vegur hans og frami er frægð þjóðar vorrar.“ (Úr ræðu Sigurðar Eggerz fjármálaráðherra sem gegndi störfum forsætisráðherra 1. desember 1918 þegar Ísland varð fullvalda ríki.)

Í tengslum við heimsóknir þjóðhöfðingja hingað til lands hafa birst fréttamyndir í sjónvarpi frá viðkomandi landi og þingi þar sem að öllu jöfnu er áberandi þjóðfáni landsins við forsæti eða ræðustól.

Þess var minnst 17. júní, á þjóðhátíðardegi Íslendinga, að 19. júní ætti hinn fagri íslenski fáni 90 ára afmæli. Hinn 1. júlí sl. voru 124 ár liðin frá því að Alþingi var sett í fyrsta sinn í Alþingishúsinu. Íslendingar státa sig af elsta löggjafarþingi veraldar, eru stoltir af þjóðfána sínum sem í 90 ár hefur af stjórnendum Alþingis þess tíma ekki verið talinn gegn og gildur innan veggja Alþingis.

Með lögum nr. 67/1998, um breyting á lögum nr. 34 17. júní 1944, um þjóðfána Íslendinga, voru heimildir til að nýta þjóðfánann rýmkaðar. Var það m.a. gert til að aflétta ofverndun íslenska þjóðfánans og stuðla að því að gera hann sýnilegri.

Alla daga þá Alþingi starfar eru beinar útsendingar sjónvarps frá þingsal og verður ekki annað sagt en að mikil blæbrigði yrðu á sjónvarpsmynd og ásýnd önnur ef þjóðfáni Íslendinga væri sýnilegur við eða nærri forsetastól.

Flutningsmenn telja það mjög við hæfi að þjóðfáni Íslendinga skipi veglegan sess í þingsal Alþingis. Það yrði hinu háa Alþingi til sóma, sem og þjóðfána vorum til vegs og virðingar.“

Virðulegi forseti. Ég gat um það áðan að þetta væri í sjötta sinn sem þessi þingsályktunartillaga væri flutt. Mér þykir þá líka rétt að geta þess að í nokkurn tíma hefur mál þetta fengið umfjöllun í forsætisnefnd og vildi ég aðeins geta nokkurra dagsetninga og ártala máli mínu til stuðnings varðandi umfjöllun fánamálsins í forsætisnefnd.

13. mars árið 2000. Erindi Guðmundar Hallvarðssonar. Lagt fram erindi Guðmundar Hallvarðssonar alþingismanns, dags. 8. mars sl., þar sem gerð er tillaga um að þjóðfána verði komið fyrir í þingsal að baki forsetastóli eða til hliðar við hann. Ákveðið að forsætisnefndarmenn kanni hvort aðstæður í þingsal geri mögulegt að hafa fánann í salnum.

20. mars árið 2000. Að loknum fundi gengu forsætisnefndarmenn í þingsal til að kanna hvort aðstæður væru til þess að koma þjóðfánanum fyrir að baki forsetastóli eða til hliðar við hann, samanber fundargerð 13. mars.

8. júní 2000. Fáninn í þingsal. Lögð fram drög að svari við bréfi Guðmundar Hallvarðssonar alþingismanns, dags. 8. mars sl., þar sem lagt er til að þjóðfána Íslendinga verði komið fyrir við hliðina eða nærri forsetastóli í þingsal, samanber fundargerð forsætisnefndar 13. mars sl. Afgreiðslu málsins frestað.

13. nóvember 2000. Þjóðfáni í þingsal. Rætt um nýlega tillögu til þingsályktunar um þjóðfána Íslendinga í þingsal Alþingis. Samþykkt að óska eftir því að Gunnar Ingibergsson leggi fyrir forsætisnefnd hugmyndir um hvernig mætti koma þjóðfánanum fyrir í þingsal ef af því yrði.

23. apríl 2001. Erindi frá allsherjarnefnd. Lagt fram erindi frá allsherjarnefnd, dags. 23. mars sl., þar sem óskað er eftir umsögn um tillögu til þingsályktunar um þjóðfána Íslendinga í þingsal, 198. mál þessa þings. Samþykkt var að skýra allsherjarnefnd frá því að forsætisnefnd veiti ekki umsögn um einstök þingmál samkvæmt beiðni þingnefnda.

Virðulegi forseti. Ég sýndi það með myndrænum hætti fyrir nokkru síðan hversu einfalt væri að koma þjóðfánanum fyrir. Eflaust muna þingmenn eftir því að þá var gert ráð fyrir að þjóðfáninn yrði nánast á bak við ritara sem er mér á hægri hönd og yrði á nánast lóðréttri stöng en ekki með þeim hætti eins og margir hverjir hafa haldið fram í ræðum og riti og jafnvel fyrrverandi forseti Alþingis talaði um það að ekki sé við hæfi að íslenski þjóðfáninn sé notaður eins og veggpunt eða gardínur í þingsalnum.

Það eru margir, virðulegi forseti, utan Alþingis sem hafa fylgst með þessu máli og verið mjög undrandi á hinum dræmu undirtektum stjórnenda þingsins hvað þetta mál varðar. Einn heiðursmaður sendi ljóð frá sér 17. júní 2002, Pétur Sigurgeirsson biskup, og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa það hér:

Sem friðarbogi í skýjum skín

hér skartar Íslands fáni.

Þitt geislar útlit – ásýnd þín,

eins og sól og máni.

Fáninn blár sem himinn – haf

með hvítt og rautt krossmerkið.

En jöklum með og eldum af

vort eyland skóp Guðsverkið.

Þjóðartákn er það til sanns

– að því vér skulum hyggja –

á kristnum gildum Guðs og manns

er gott að mega byggja.

Ein er fánans ferð ei löng

en fer þó hugsvið þegna

í hálfa eða heila stöng

er hafinn upp þess vegna.

Íslands fáni Alþingis

þar æðst með ráð er vandi,

forsjón þings til fulltingis

fyrir þjóð og landi.

Í musterum og menntasal,

á miðum – landsbyggð yfir,

yst við strönd og innst í dal

eins þar fáninn lifir.

Hér á þökk Jón Sigurðsson,

sómi landsins er hann.

Frelsið kom, hans framtak – von

– er fánans mótar viljann.

Ó, vernda Drottinn borg og byggð,

bæði loft og sæinn.

Þín eilífð varir, elska og tryggð,

þú Alfaðir gafst daginn.

Þetta ljóð er eftir Pétur Sigurgeirsson biskup en hann hefur sýnt þessu máli sérstakan áhuga. Það hafa fleiri líka gert. Ekki fyrir löngu, og í nokkur skipti, hefur Pétur nokkur Kristjánsson skrifað athugasemdir um meðferð þjóðfánans og jafnframt undrað sig á því hvers vegna þjóðfáninn væri ekki meira nýttur af hinu opinbera og hvers vegna hann væri ekki hér í þingsal. Það er athyglisvert að vita af því líka að þegar þessi heiðursmaður, Pétur Kristjánsson, hefur sent athugasemdir til ýmissa opinberra stofnana um hvernig fara skuli með þjóðfánann hefur verið fátt um svör.

Mér er minnisstætt opið bréf sem hann sendi til forsetaembættisins þar sem hann benti á að lög þjóðfánans væru þess eðlis að frá áhorfanda séð að ræðustól eigi þjóðfáninn lögum samkvæmt að vera á hægri hönd þess sem talar, þ.e. á vinstri hönd séð frá þeim sem horfir á ræðupúlt. Ár eftir ár er öfugt farið með þetta hjá forsetaembættinu. Fáninn á Bessastöðum er alltaf vinstra megin við ræðupúltið. Hvernig í ósköpunum má það vera að æðsta embætti þjóðarinnar skuli ekki fara eftir þeim lögum sem forsetaembættið staðfesti á sínum tíma? Það segir kannski svolítið um það áhugaleysi sem verið hefur um þetta mál til skamms tíma varðandi þjóðfánann í þingsal. Það er náttúrlega sérstakt líka þegar litið er til þess að aðilar úti í bæ, skólafólk og gestir af götunni, erlendir aðilar, leggja í ört vaxandi mæli leið sína hingað í þinghúsið. Ég er með tölur um það og t.d. árið 2005 komu hér 7 þúsund gestir. Ég heyri það líka að það undrar marga að þjóðfáni Íslendinga skuli ekki vera hér innan dyra.

Jafnframt er það líka mjög sérstakt í öll þessi ár, eins og þjóðhátíðin á Þingvöllum 1944 beindist mjög að þjóðfána Íslendinga, dagskráin í ræðum og riti og söng, að menn skyldu þá ekki hafa tekið ákvörðun um að finna þjóðfánanum stað í þingsal.

Virðulegi forseti. Tími minn er senn á enda. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og allsherjarnefndar. Ég óska þess jafnframt, virðulegi forseti, að allsherjarnefnd sendi forsætisnefnd málið til umsagnar.