133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis.

41. mál
[18:07]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kýs að koma í andsvar við ræðu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar fyrst og fremst til að hrósa honum fyrir þrautseigju. Hann hefur flutt þetta mál aftur og aftur og hefur hvergi látið deigan síga. Ég skil hann mjög vel. Fáninn er tákn fullveldis, hann er fallegur og hann er mikilvægur og ekkert er hátíðlegra en að sjá hann blakta við hún þegar svo ber undir. Hann mundi sóma sér vel í þingsal.

Ég tek eftir að 31 þingmaður flytur málið og að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur fengið jafnmarga þingmenn úr sínum eigin flokki, Sjálfstæðisflokknum, og úr Samfylkingunni til að flytja málið með sér. Það eru níu samfylkingarþingmenn og níu sjálfstæðisþingmenn sem flytja málið með honum, auk annarra. Ég staldraði við þetta.

Það er nú þannig að lengi er von á einum og ekki síst í atkvæðagreiðslu má búast við að einhverjir fleiri leggi þingmanni lið. Nú er þingmaðurinn í þeirri stöðu sem við svo oft höfum lent í í stjórnarandstöðunni og þingmenn allir, að þingmenn meiri hlutans kalla eftir því aftur og aftur í umdeildum málum að réttur þeirra sé að fá að ganga til atkvæða um mál sín, að nú sé mál að linni umræðu af því að það liggi alveg ljóst fyrir að meiri hluti sé fyrir málinu og gengið skuli til atkvæða.

Mér datt í hug, af því að vilji er allt sem þarf í þessu máli, að hann eigi að brýna sína menn og gera kröfu um að málið fái að koma til atkvæða á Alþingi, þannig að út verði kljáð áður en hann sjálfur hverfur af Alþingi nú á vordögum.