136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[10:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. formanns fjárlaganefndar var svo sem ekki farið yfir alla þætti þeirra fjölmörgu breytingartillagna sem hér liggja fyrir en þó nokkuð og almennt. Ég vil fyrst segja að ég tel að mikið skorti á að vinnubrögðin við þessa fjárlagagerð séu viðunandi. Hér var dreift seint á laugardaginn fjölmörgum umfangsmiklum breytingartillögum sem þingmenn hafa ekki haft mikinn tíma til þess að fara yfir rækilega eða fá ítarlegar skýringar við því að þeim fylgir fæstum nokkur greinargerð með rökstuðningi.

Ég vil þess vegna leyfa mér að spyrja um eitt atriði bara í þessari atrennu sem ég rek augun í og það er í 6. gr. frumvarpsins, heimildargreininni, þar sem í lið 3.5 segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Að selja eignarhlut ríkisins í Hraunbæ 102d–102e og verja andvirðinu til kaupa eða leigu á hentugu húsnæði fyrir Heilsugæslu Árbæjar.“

Í breytingartillögu meiri hlutans falla burt úr þessum lið orðin að: „verja andvirðinu til kaupa eða leigu á hentugu húsnæði fyrir Heilsugæslu Árbæjar.“ Heimildin gengur þá út á að selja eignarhlut ríkisins í þessu húsnæði fyrir Heilsugæsluna í Árbæ en það er sem sagt ekki gert ráð fyrir því að andvirðinu verði ráðstafað til þess að leigja eða kaupa annað hentugt húsnæði fyrir þessa heilsugæslu í þessu hverfi í Reykjavík. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hverju þetta sæti, hvort það sé ekki gert ráð fyrir því að Heilsugæslan í Árbæ verði starfrækt áfram.