140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

viðbrögð eftirlitsstofnana og ráðuneytis við dómi Hæstaréttar um gjaldeyrislán.

[16:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér þótti hæstv. ráðherra vera nokkuð bíræfinn þegar hann sagði að ráðuneytið hefði verið viðbúið þessum dómi. Ég hef ekki heyrt neinn aðila, allra síst þá sem best þekkja til sem og hv. efnahags- og viðskiptanefnd, reynt að halda því fram. Reyndar er það þannig að stjórnarliðar hafa ekkert farið í felur með það að bæði eftirlitsstofnanir og ráðuneytið voru ekki undir þetta búin, enda skýra því miður svör hæstv. ráðherra það enn frekar. Það er kaldhæðnislegt, virðulegi forseti, þegar hæstv. ráðherra er spurður út í fordæmið vitnar hann í eitt lögfræðiálit. Hvaða lögfræðiálit er það? Jú, það er frá fjármálafyrirtækjunum. Það eina sem hæstv. ráðherra vitnar í er álit frá fjármálafyrirtækjunum.

Ég vek athygli á því að hingað kemur hæstv. ráðherra, ég þakka honum fyrir það, og segir sem ég veit ekki til að hafi komið fram áður að það hafi verið 50% niðurfærsla á lánunum milli gömlu og nýju bankanna, þ.e. þessum tegundum lána. Og um íbúðalánin í þeim fyrirspurnum sem hefur verið svarað fram til þessa er sagt að það hafi verið 28% afsláttur og hjá fyrirtækjum 60%.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að eftirlitsstofnanir og ráðuneytið séu ekki tilbúin undir þetta — þess vegna er verið að bíða eftir upplýsingum, þess vegna fæ ég ekki svar við spurningunni fyrr en um miðjan mánuðinn — þá lítur út fyrir að það sem dómstólar hafa leiðrétt, sem er í rauninni eina leiðréttingin sem komið hefur fram um skuldir, og samningar ríkisstjórnarinnar, hafi gert það að verkum að dómar um gengistryggðu lánin komi illa niður á þeim sem eru með verðtryggð lán miðað við þær upplýsingar sem við höfum núna.

Virðulegi forseti. Kannski eru til (Forseti hringir.) betri upplýsingar en það er einn aðili sem getur komið með þær upplýsingar og það er hæstv. ráðherra. Ég mun halda áfram að spyrja.