140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

íþróttaferðamennska.

287. mál
[17:23]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg umræða og ber að þakka fyrir að hún sé tekin upp hér. Allar þjóðir horfa til þess að auka ferðamannastraum yfir vetrartímann, hinar svokölluðu „axlir“ vor og haust og sjálfan veturinn. Nú er það svo að 40% ferðamanna sem koma til Íslands koma yfir veturna en 60% á hinum stutta kafla frá miðjum júní fram í miðjan ágúst. Þessu ber að breyta, allar aðrar þjóðir hafa reynt að gera það, Finnar með mjög góðum árangri og Norðmenn reyndar líka, svo horft er til svokallaðra jaðarþjóða þegar kemur að ferðaþjónustu. Þegar kemur að íþróttum er einn þjóðarleikvang að finna utan Reykjavíkursvæðisins og hann er í Hlíðarfjalli, Vetraríþróttamiðstöð Íslands er að finna í Eyjafirði. Hægt er að tengja skíðasvæðin á Tröllaskaga með mjög afgerandi hætti og ég skora hér á hæstv. iðnaðarráðherra, sem er ráðherra ferðamála, að leggja meiri kraft í uppbyggingu á þessu svæði sem (Forseti hringir.) mun dreifa ferðamönnum betur yfir árið og betur yfir landið.