143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[13:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er mjög feginn að heyra að Evrópusambandið hefur komist að þeirri niðurstöðu að landsvæði sem umleikið er sjó og ekki fast við meginland sé eyja. Ég held að við höfum náð töluverðum framförum með því að fá þá skilgreiningu á hreint.

Að öllu gamni slepptu þakka ég hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu og málefnalega nálgun. Auðvitað snýst þetta mál um margt. Það snýst um hvort menn telja æskilegt að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu eins og Evrópusambandið er eða eru eftir atvikum, eins og sá sem hér stendur, andvígir því að Ísland gangi í Evrópusambandið eins og það er. Svo er auðvitað líka, eins og við höfum heyrt í umræðum, það sjónarmið uppi að ef Evrópusambandið lagar sig að sérstökum kröfum Íslands geti það orðið æskilegur vettvangur fyrir Íslendinga. Það má því segja að þetta sé þríþætt. Sumir eru, ef við getum orðað það, kategórískt með aðild, aðrir eru kategórískt á móti og í báðum tilvikum hafa menn væntanlega hafa komist að niðurstöðu vegna þeirra upplýsinga sem liggja fyrir, og hafa kannski legið fyrir í langan tíma, um Evrópusambandið.

Síðan er það alltaf spurningin um sérlausnir. Sumir líta þannig á að Evrópusambandið sé býsna gott í heildina en það þurfi sérlausnir til til að Ísland geti orðið aðili að því. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður Óttarr Proppé sé þeirrar skoðunar að Evrópusambandið eins og það er sé æskilegur vettvangur fyrir Ísland eða hvort hann telur sérlausnir nauðsynlega forsendu þess að Ísland geti orðið aðili að Evrópusambandinu.