146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

dómstólar og breytingalög nr. 49/2016.

481. mál
[15:01]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til breytinga á ákvæði til laga um dómstóla þar sem lagðar eru til breytingar á ákvæðum um fjölda hæstaréttardómara og breytingu á lögum um millidómstig er varðar meðferð þeirra sakamála sem ólokið er við næstu áramót þegar Landsréttur tekur til starfa.

Nú þegar er unnið að innleiðingu á nýrri dómstólaskipan á Íslandi og mun Landsréttur taka til starfa 1. janúar 2018 eins og þingheimur þekkir. Eins og ég hef áður nefnt er nauðsynlegt eftir því sem þessari innleiðingu vindur fram að gera ýmsar lagabreytingar sem ekki var fyrirséð að yrðu nauðsynlegar þegar Alþingi samþykkti í maí á síðasta ári tvö lagafrumvörp sem lögðu grunninn að nýrri dómstólaskipan. Í þessu frumvarpi er að finna slíkar breytingar. Þær eru í raun þrenns konar:

Í fyrsta lagi er í þessu frumvarpi lagt til að ekki verði skipað í þau embætti hæstaréttardómara sem losna á þessu ári fyrr en þess gerist þörf til að hæstaréttardómarar verði sjö. Samkvæmt nýjum lögum um dómstóla sem taka gildi 1. janúar á næsta ári skulu dómarar við Hæstarétt Íslands vera sjö. Til grundvallar þeim fjölda lá mat á nýju hlutverki Hæstaréttar að teknu tilliti til hugsanlegs vanhæfis og forfalla dómara. Voru jafnframt þrengdar heimildir til setningar varadómara í einstök mál vegna forfalla dómara. Dómarar við Hæstarétt eru í dag tíu samkvæmt sérstakri tímabundinni heimild sem rennur út um næstu áramót. Nú liggur fyrir að einn dómari við Hæstarétt mun láta af embætti 1. september nk. Til að koma til móts við þann fjölda dómara sem ákveðinn hefur verið í nýjum lögum um dómstóla er lagt til að ekki verði skipað í þau dómaraembætti sem losna á þessu ári fyrr en dómarar verða sjö.

Í öðru lagi er lagt til að þeim sakamálum sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar, sem Hæstiréttur hefur ekki lokið fyrir 1. janúar 2018, verði falin Landsrétti til afgreiðslu. Eins og rakið er í athugasemdum við frumvarpið fellur niður heimild Hæstaréttar til að vísa málum aftur til meðferðar í héraðsdómi, sökum mats á sönnunargildi munnlegs framburðar, þann 1. janúar 2018. Er því nauðsynlegt að ákveða hvernig fara á með mál sem svo yrði statt um. Hér er því lagt til að öll sakamál sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar en ekki er lokið þar fyrir 1. janúar 2018 fari til meðferðar hjá Landsrétti. Þannig verður unnt að endurmeta sönnunargildi munnlegs framburðar á ný hjá Landsrétti. Auk þess mun þetta létta álagi af Hæstarétti við úrvinnslu eldri mála og tryggja að verkefni verði til staðar hjá Landsrétti þegar hann tekur til starfa 1. janúar. Óbreytt er að Hæstiréttur skuli ljúka öllum einkamálum sem áfrýjað hefur verið til réttarins fyrir 1. janúar 2018.

Í þriðja lagi er lagt til að í þeim málum sem skotið hefur verið til Hæstaréttar fyrir 1. janúar 2018 og verður dæmt í af Hæstarétti, geti forseti Hæstaréttar heimilað að þrír dómarar sitji í málinu í stað fimm. Í máli sem skotið verður til réttarins eftir 1. janúar 2018 skulu nefnilega sitja fimm dómarar, eins og ný lög um dómstóla kveða á um, en þau taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 2018. Breytingin tekur því aðeins til þeirra mála sem í hefðu setið þrír dómarar hefði þeim verið lokið fyrir áramót og heyrt undir núgildandi lög um dómstóla, nr. 15/1998.

Fram hefur komið hjá Hæstarétti að fram á árið 2019 verði áfram álag á réttinum vegna afgreiðslu eldri mála sem og að rétturinn þurfi að aðlaga sig breyttu hlutverki. Fækkun dómara muni hafa áhrif á afköst réttarins. Komið er til móts við fækkun dómara í þessu frumvarpi með því að fela Landsrétti að ljúka þeim sakamálum sem ólokið er hjá Hæstarétti við næstu áramót, auk þess sem heimilt verður að fela þremur dómurum í stað fimm að ljúka einhverjum af eldri málum sem skotið hefur verið til réttarins.

Eins og ég hef gert grein fyrir hér að framan var við samþykkt nýrra dómstólalaga þrengt að heimildum til að setja dómara tímabundið vegna leyfis dómara um að setja varadómara í einstök mál vegna vanhæfis eða forfalla dómara. Ég tel koma til greina að auka heimildir til að setja dómara í Hæstarétt vegna leyfis dómara og veita tímabundna heimild til að setja varadómara í einstök mál í Hæstarétti sökum anna, eins og áður hefur verið gert. Ég tel að ekki sé tímabært að taka afstöðu til þess núna, en ég vil láta þess getið að það er auðvitað alltaf möguleiki sem Alþingi getur tekið til umfjöllunar þegar þar að kemur og ef tilefni þykir vera til.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarps þessa.

Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.