149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðari spurningu hans. Það er mjög margt sem stjórnvöld geta gert í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og í samvinnu við Alþingi allt til þess að bæta kjör fólksins í þessu landi. Ég nefndi húsnæðismálin. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um það því að ég hef kynnt mér tillögur flokks hans í húsnæðismálum, að það er mjög mikilvægt að styrkja hin félagslegu húsnæðiskerfi.

Við höfum rætt um félagsleg undirboð sem meinsemd sem ekki eigi að líðast á innlendum vinnumarkaði. Þar erum við hv. þingmaður sammála.

Hvað varðar skattkerfisbreytingar höfum við þegar gripið til vissra ráðstafana til að tryggja að ólíkir tekjuhópar fari ekki með ólíkum hætti út úr skattkerfisbreytingum, þ.e. að samstilla efri og neðri mörkin í skattkerfinu sem ekki voru samstillt því að önnur fylgdu launavísitölu og hin neysluvísitölu, sem þýddi að tekjuhærri hópar komu betur út úr skattkerfisbreytingum en tekjulægri. Því var breytt um síðustu áramót.

Ég vil bara ítreka það að ég hef áður sagt að þær breytingar sem við gerum eiga að verða til þess að auka jöfnuð í kerfinu. Þær mega ekki verða til þess að við þurfum að vanrækja samneysluna vegna skattalækkana. En það er mjög mikilvægt að allar ívilnanir komi sem best út fyrir tekjulægri hópana. Markmiðið á að vera að stuðla að raunverulegri lífskjarabót fyrir þá hópa.