149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

launahækkanir æðstu stjórnenda ríkisfyrirtækja.

[15:17]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og finnst ánægjulegt að hún minnist einmitt á það sem fyrrverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, gerði, að senda bréf til allra stjórna fyrirtækja í eigu ríkisins og biðja þær að huga að áhrifum á stöðugleika á vinnumarkaði eins og hæstv. ráðherra kom inn á.

Ég vil einmitt minnast sérstaklega á orð sem hann lét falla í þessu bréfi þar sem kemur fram að æskilegt sé að launaákvarðanir séu varkárar og forðast sé að ákvarða miklar launabreytingar á stuttu tímabili en þess í stað sé þess gætt að laun séu hækkuð með reglubundnum hætti til samræmis við almenna launaþróun. Mér finnst það algjörlega ljóst að stjórnir fjölmargra ríkisfyrirtækja hafa gjörsamlega hunsað þessi fyrirmæli. Listinn yfir þá ríkisforstjóra sem hafa hlotið margra tuga prósenta hækkun á laun sín heldur áfram að lengjast og krónutöluhækkun þeirra flestra er hærri en lágmarkslaun á Íslandi.

Ég spyr í fyrsta lagi: Hvað verður um þá stjórnarmenn sem hunsa svona fyrirmæli? Munu þeir sæta einhverjum afleiðingum? Munu þeir fá að sitja áfram, þ.e. verða þeir skipaðir aftur, geta þeir átt von á endurkjöri? Er einhugur í ríkisstjórn með þessa afstöðu að ekki verði afskipti af því hvernig þetta verður eða ekki? (Forseti hringir.) Ég heyri ráðherra tala í kross um þessi mál um þessar mundir.