149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

launahækkanir æðstu stjórnenda ríkisfyrirtækja.

[15:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þá kem ég að því sem ég kom ekki að í fyrra svari, en hv. þingmaður nefndi líka til hvaða viðbragða ætti að grípa. Ég verð að segja að ég heyri ráðherra ekki tala í kross í því máli. Það liggur fyrir að núverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur sent Bankasýslu ríkisins og stjórnum þessara fyrirtækja bréf þar sem hann ítrekar að tilmælin frá 2017 séu í fullu gildi — enda eru þau í fullu gildi — og óskar eftir rökstuðningi stjórnanna fyrir ákvörðunum sínum, þ.e. hvernig stjórnirnar geti mögulega rökstutt að þeim tilmælum hafi verið fylgt sem og hinni almennu starfskjarastefnu ríkisins. Stjórnunum og Bankasýslunni er gefinn naumur tímafrestur til svara þannig að væntanlega er von á svari frá þeim fyrir lok þessarar viku.

Það er mjög mikilvægt að hið opinbera taki mjög fast á slíkum málum í sínum ranni. Það höfum við gert. Við höfum þegar lagt niður kjararáð, sem var önnur uppspretta eilífra átaka og deilna. Við erum að færa launafyrirkomulag æðstu embættismanna í gagnsæjan og fyrirsjáanlegri farveg og hið sama hlýtur að eiga að gilda um þau fyrirtæki og þær stofnanir sem ríkið ber ábyrgð á. Þátt fyrir að við gætum að þeim armslengdarsjónarmiðum sem við viljum gæta að, (Forseti hringir.) sérstaklega gagnvart svona starfsemi, hljótum við líka að gera þá kröfu að launastefnan sé (Forseti hringir.) í takt við stefnu stjórnvalda á hverjum tíma.