151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

barnalög.

11. mál
[12:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög gott mál og löngu tímabært að fara þessa leið eða formgera það sem nú þegar hefur viðgengist hjá mjög mörgum fjölskyldum sem betur fer þegar skilnaði lýkur í fullkominni sátt. Það hefur vantað upp á ákveðin atriði þannig að báðir foreldrar hafi aðgang að sambærilegum upplýsingum og öðru slíku úti í kerfinu og við því þarf að bregðast.

Ég tel að við eigum að fagna því að samþykkja þetta mál. Þær breytingar sem þarf að gera á öðrum lögum verða gerðar, það hafa ráðherrar hinna málaflokkanna sannfært okkur um, bæði reglugerðarheimildir er varðar sjúkratryggingar, kaup á búnaði fyrir fötluð börn og lögin hjá félagsmálaráðherra sem þarf að breyta í kjölfar þess. Þess vegna er gildistíminn ekki fyrr en um næstu áramót og það skiptir gríðarlega miklu máli.