Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

Störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Fréttir bárust þess efnis að kjötframleiðendur væru í stórum stíl að kaupa tollkvóta til að draga úr samkeppni við innflytjendur. Við þekkjum öll þá fákeppni sem er til staðar og áhrif þess á vöruúrval og verðlag. Þess vegna lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. matvælaráðherra og óskaði upplýsinga um magn þess tollkvóta sem væri úthlutað til framleiðenda á sömu eða sambærilegum vörum og hversu mikið þeir nýttu af tollkvótunum. Það verður að segjast eins og er að svar ráðuneytisins kom mér vægast sagt á óvart. Úr því var ekki hægt að lesa að íslenskir framleiðendur keyptu tollkvóta í stórum stíl. Þeir kaupa jú eitthvað en það getur átt sínar eðlilegu skýringar, eins og t.d. að bregðast við skorti á innanlandsmarkaði.

Í framhaldinu sendi ég svarið til aðila sem þekkja markaðinn betur en ég og bað um aðstoð við að ráða fram úr þessu svari. Þeir bentu mér á að svarið næði alls ekki utan um uppkaup á tollkvótum. Samkvæmt þeim eru framleiðendur á Íslandi tengdir stórum innflutningsfyrirtækjum sem þeir nota til að kaupa kvótann fyrir sig. Kaup þeirra væru því miklu meiri en fram kemur í svari ráðuneytisins.

Annað sem sló mig er að ráðuneytið sagðist engar upplýsingar hafa um það hversu mikið af tollkvótanum væri keyptur án þess að vera nýttur. Það eru upplýsingar sem maður hefði búist við að ráðuneyti matvæla fylgdist með og hefði á reiðum höndum. Það hlýtur að vera eðlileg og réttmæt krafa, virðulegur forseti, að ráðuneytin svari spurningum á þann hátt að hægt sé að draga eðlilegar og skýrar ályktanir af þeim. En svo er ekki í þessu tilviki. Ég þarf því líklega bara að spyrja aftur.