Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

Störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar við þetta tækifæri að vekja athygli á umræðu sem á sér stað hér hinum megin Vonarstrætisins akkúrat núna í borgarstjórn. Þar er verið að ræða samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og tillögu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna um endurskoðun ákvæða sáttmálans. Þetta er virkilega þörf umræða sem á sér nú stað og fer upp á yfirborðið núna í kjölfar þess að nokkrir sveitarstjórar, nokkrir bæjarstjórar Sjálfstæðisflokksins í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar hafa tekið undir þau sjónarmið sem ég hef hér talað fyrir um allnokkra hríð og félagar mínir í Miðflokknum, að þetta sé fullkomið stjórnleysi sem við erum að verða vitni að í tengslum við samgöngusáttmálann. Við sjáum einn verkþátt fara upp um 550% í kostnaði, úr 2,5 milljörðum í 17,5 milljarða, án þess að það sé rætt nokkurs staðar annars staðar en á kontór Betri samgangna ohf.

Mér þykir til mikillar fyrirmyndar að sveitarfélögin hafi frumkvæði að því að virkja endurskoðunarákvæði samgöngusáttmálans. Þetta er í takt við það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði í svari við mig í fyrirspurnatíma núna fyrir tveimur vikum síðan eða svo, að það sé einfaldlega það margt sem gerist með öðrum hætti en ráðgert var að það séu orðnar uppi forsendur endurskoðunar. Þetta er hundruð milljarða verkefni í heildina og þegar ekki einu sinni liggur fyrir rekstraráætlun fyrir þessa svokölluðu borgarlínu, sem menn ætla að leggja sem aukalag ofan á linnulausan, botnlausan, taprekstur Strætó BS ofan á allt annað, þá minnir það mann á söguna af hástökkvaranum sem hélt að hann væri betri í að stökkva yfir hærri hæð en lægri, að Strætó muni takast betur til við að reka almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins með aukalagi af risarútum ofan á það sem félagið ræður illa við í dag. Ég bara fagna þessu og vil vekja athygli á þeirri umræðu sem á sér stað hinum megin Vonarstrætisins, (Forseti hringir.) en ég er jafnframt hræddur um að þessi tillaga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins verði felld með meiri hluta atkvæða eftir nokkra klukkutíma.